Hljómsveitin Pixies endurborin á tónleikum í Bandaríkjunum á dögunum.
Hljómsveitin Pixies endurborin á tónleikum í Bandaríkjunum á dögunum.
MIÐASALA á aukatónleika bandarísku rokkhljómsveitarinnar Pixies, sem verða í Kaplakrika þann 25. maí, hefst kl. 9 í dag.

MIÐASALA á aukatónleika bandarísku rokkhljómsveitarinnar Pixies, sem verða í Kaplakrika þann 25. maí, hefst kl. 9 í dag. Miðar verða seldir í verslunum Skífunnar á höfuðborgarsvæðinu, Pennanum/Bókabúð Andrésar - Akranesi, Hljóðhúsinu - Selfossi, Pennanum Glerártorgi - Akureyri og á www.icelandair.is /haenan.

Það er Hr. Örlygur sem heldur tónleikana en uppselt varð á skotstundu á tónleika sveitarinnar 26. maí.

Pixies reis formlega upp frá dauðum nú um miðjan aprílmánuð og er nú komin á fullt í spilerí um víðan völl. Sveitin er nú í Bandaríkjunum þar sem viðtökur hafa verið svo góðar og eftirspurnin það mikil að búið er að bæta við haugi af tónleikum í haust og næsta vetur. Og gagnrýnendur hafa almennt tekið endurkomunni fagnandi og hælt Pixies fyrir það að virka einmitt ekki eins og afturgöngur, líkt og svo margar sveitir gera þegar þær rísa upp frá dauðum, sbr. mislukkaða endurkomu tveggja goðsagnakenndra sveita sem teljast til helstu hetja Pixies og fyrirmynda - Sex Pistols og The Velvet Underground.

Á tónleikunum í Bandaríkjunum hefur Pixies mestmegnis verið að leika gömlu góðu slagarana, lög af plötunum fimm sem sveitin gaf út á meðan hún starfaði. Einnig hafa þó einhver ný lög fengið að læðast með og fer þeim væntanlega fjölgandi eftir því sem sveitin leikur meira saman.

Hr. Örlygur stendur jafnframt fyrir tónleikum með Kraftwerk í Kaplakrika 5. maí og kemur fram í tilkynningu að enn séu til miðar á þá tónleika.