ÞORSTEINN Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, telur tímabært að endurskoða og endurskilgreina hlutverk Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu.

ÞORSTEINN Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, telur tímabært að endurskoða og endurskilgreina hlutverk Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu. "Öryggis- og eftirlitshlutverk þessara stofnana fara vel saman og ég tel að stefna beri að því að sameina þær," sagði Þorsteinn Már á aðalfundi Samherja í gær.

Hann gerði eftirlit með veiðum og vinnslu úti á sjó að umtalsefni, sagði tækninni stöðugt fara fram og nú væri svo komið að með aðstoð gervihnatta væri unnt að fylgjast með staðsetningu og ferðum allra skipa, hvar sem þau væru stödd. Það væri til að mynda gert varðandi öll skip sem stunduðu veiðar utan landhelgi og tæknin væri einnig til staðar í minni skipum sem stunduðu veiðar í landhelginni. "Ég tel að innleiða beri þessa tækni í öll íslensk fiskiskip hvar sem þau stunda veiðar. Þessi tækni gerir allt eftirlit markvissara en er auðvitað ekki síður mikilvæg þegar horft er til öryggissjónarmiða," sagði forstjóri Samherja og nefndi að eftirlitið væri nú bæði í höndum Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar og ljóst að um tvíverknað væri að ræða.

Hann nefndi að rétt væri að huga að því hvernig skipakostur og starfsmenn sameinaðrar stofnunar gæti nýst betur við hafrannsóknir. Þannig gæti Landshelgisgæslan rekið hafrannsóknarskipin. "Með sameiningunni yrði einnig auðveldara að endurnýja skipaflota Landhelgisgæslunnar en ljóst er að slík endurnýjun er nauðsynleg," sagði Þorsteinn og bætti við að hann vonaði að ráðamenn þjóðarinnar myndu ræða þessa hugmynd í fullri alvöru "og beri gæfu til að hrinda henni í framkvæmd".