Pylsukoddi: Upprúllað handklæði getur verið ódýr lausn á erfiðu vandamáli.
Pylsukoddi: Upprúllað handklæði getur verið ódýr lausn á erfiðu vandamáli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upprúllað handklæði undir hálsinn í stað kodda getur verið lausn á vandamáli margra sem vakna með óþægindi í hálsi, baki eða höfði, að sögn Haraldar Magnússonar hrygg- og liðskekkjufræðings.

Haraldur Magnússon er annar tveggja starfandi osteópata á Íslandi en starfsheitið útleggst á íslensku "hrygg- og liðskekkjufræðingur" . Starf hans felst í að greina vandamál hvers og eins og nota t.d. nudd og hnykki í meðferðinni.

Fólk sem m.a. þjáist af bak-, háls- og höfuðverkjum getur leitað aðstoðar Haraldar og hann hlustar á sjúkrasögu og lýsingu á vandamálum hvers og eins. Eitt af því sem hann spyr fólk um er hvenær dagsins það finni helst fyrir óþægindum.

"Helsta vísbendingin um að eitthvað sé að koddanum er þegar fólk vaknar með óþægindi í hálsinum," segir Haraldur. Þá á hann t.d. við stífan háls, vöðvabólgu eða höfuðverk. Orsakir geta þó einnig verið loftleysi í herbergi eða slæm rúmdýna. "Réttur koddi getur ráðið bót á vöðvabólgu, hálsverkjum og höfuðverk og skiptir því miklu máli."

Náttúruleg staða mikilvæg

Þegar hann telur að koddinn gæti verið hluti af vandamáli viðkomandi ráðleggur hann henni eða honum að gefa gamla koddanum sínum frí og rúlla í staðinn upp handklæði, smeygja teygjum upp á endana og prófa að sofa með rúlluna undir hálsinum þannig að hún passi og veiti þægilegan stuðning undir hálsinn. "Asíuþjóðir nota mikið svona pylsukodda undir hálsinn og rannsóknir sýna að þetta reynist mjög vel við hálsvandamálum. Þetta er ódýr leið til að athuga hvort líðanin batnar."

Tilgangurinn með pylsukoddunum og öðrum heilsukoddum er að veita stuðning undir hálsinn þannig að náttúruleg staða á hálsi hvers og eins haldist. Rúllan kemur í veg fyrir að hálsinn detti niður þegar maður liggur og hakan fari þar af leiðandi niður á við. Haraldur segir að rétt staða geti m.a. hjálpað fólki með léttvægan til miðlungs alvarlegan kæfisvefn því öndunarvegurinn haldist opinn með þessum hætti.

Svefnstelling skiptir máli

Hann mælir einnig með svokölluðum heilsukoddum og ráðleggur fólki að prófa mismunandi tegundir þeirra í verslunum. Haraldur segir þó að réttur koddi geri ekki sitt gagn ef sofið er á gamalli og úr sér genginni dýnu. Lélegur koddi getur valdið vandamálum alveg niður í mjóbak.

"Þetta fer eftir hverjum og einum en mjög góður koddi getur ekki lagað mjög lélegt rúm."

Haraldur segir að venjulegir dúnkoddar séu mismunandi og það fari eftir svefnstellingu fólks hvernig dúnkodda það eigi að velja sér. Þeir sem sofa á maganum ættu ekki að nota kodda en ef þeir vilja samt sem áður hafa kodda, verður hann að vera mjög mjúkur til að höfuðið og bakið fettist ekki um of. Ef fólk sefur á bakinu á það að hafa millistífan kodda en ef það sefur á hliðinni ætti það að hafa mjög stífan kodda því þá er höfuðið svo langt frá öxlunum að það þarf góðan stuðning. Heilsukoddarnir miðast við að fólk sofi á bakinu eða hliðinni.

Haraldur sefur sjálfur með slíkan kodda en þá er hann tilsniðinn í miðjunni fyrir höfuðið en hár upp á hliðarnar. "Þannig að þegar ég sef á bakinu er lágt undir og stuðningur mátulegur undir hálsinn en þegar ég færi mig á hliðina fer ég upp á meiri hæð."

Breytingin getur verið óþægileg

Haraldur segir að fólk finni oft fyrir miklum breytingum þegar það skiptir um kodda og ráðleggur fólki að gefa sér góðan tíma. "Koddi er persónulegt val. Stærsta málið þegar maður fær sér nýjan kodda er að hafna honum ekki strax. Þetta er breyting og fólk ætti að reyna nýjan kodda í tvær vikur áður en það dæmir hann lélegan. Breytingin frá einhverju slæmu yfir í eitthvað gott getur nefnilega verið óþægileg."

Haraldur starfar á Heilsumiðstöðinni Heilsuhvoll sem tekur til starfa á nýjum stað við Borgartún 1. maí nk. Fimmtán þerapistar starfa við Heilsumiðstöðina t.d. á sviði ilmolíumeðferðar, nudds, Alexandertækni, nálarstungu og hómópatíu. Hver og einn beinir skjólstæðingum áfram til annarrar meðferðar ef það er talið henta þeim betur eða gagnast samhliða. "Þetta er heildræn meðferð. Ég sérsníð ráðleggingar eftir hverjum og einum og það er mjög erfitt að alhæfa eitthvað, hvort sem það er í sambandi við dýnur eða kodda," segir Haraldur að lokum.

steingerdur@mbl.is