Málverk af konungi íslenskra fjalla fær inni í Végarði: Jónas Þór Jóhannsson afhendir Gunnþórunni Ingadóttur málverk af Snæfelli. Viðtökuna votta Kári Ólason og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
Málverk af konungi íslenskra fjalla fær inni í Végarði: Jónas Þór Jóhannsson afhendir Gunnþórunni Ingadóttur málverk af Snæfelli. Viðtökuna votta Kári Ólason og Jóhannes Geir Sigurgeirsson. — Morgunblaðið/Guttormur V. Þormar
Geitagerði | Um síðustu helgi var opnuð á nýjan leik kynningarsýning í Végarði í Fljótsdal, á vegum Landsvirkjunar.

Geitagerði | Um síðustu helgi var opnuð á nýjan leik kynningarsýning í Végarði í Fljótsdal, á vegum Landsvirkjunar. Sýningin hefur undanfarna mánuði verið í Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Egilsstöðum og var flutt um set frá Végarði þegar miklar framkvæmdir og endurbætur hófust við húsið.

Sýningin fjallar um framkvæmdirnar við Kárahnjúkavirkjun og verður opin almenningi fram á haustið. Er hún nokkurskonar framhald á sýningu frá s.l. sumri, sem þótti takast mjög vel og var sótt af um fimmþúsund manns.

Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar við Kárahnjúkavirkjun, Hrönn Hjálmarsdóttir, kynnti sýninguna og bauð gesti velkomna, en hún verður sýningarstjóri í sumar. Þá flutti stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhannes Geir Sigurgeirsson ávarp, bauð gesti velkomna og kynnti fyrir þeim stöðu mála varðandi virkjunarframkvæmdirnar.

Samkór Norður-Héraðs söng við opnunina nokkur lög undir stjórn Suncönu Slamnig.

Sveitarstjóri Norður-Héraðs, Jónas Þór Jóhannsson, færði Fljótsdalshreppi að gjöf mynd af Snæfelli, sem verður sett upp í Végarði. Þá afhenti hann Landsvirkjun mynd af Herðubreið. Oddviti Fljótsdalshrepps, Gunnþórunn Ingólfsdóttir, og Jóhannes Geir þökkuðu gjafirnar. Hátíðargestur var iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir og var fjölmenni við opnunina. Til stendur að vígja Végarð formlega í sumar.