Það var margt sem gladdi augað á handverkssýningu eldri borgara á Héraði: Helga Jóna   handavinnukennari sýnir gestum fallega muni.
Það var margt sem gladdi augað á handverkssýningu eldri borgara á Héraði: Helga Jóna handavinnukennari sýnir gestum fallega muni. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Egilsstaðir | Handverkssýningu eldri borgara á Fljótsdalshéraði lauk á mánudag, en hún var haldin á Egilsstöðum og stóð í þrjá daga.

Egilsstaðir | Handverkssýningu eldri borgara á Fljótsdalshéraði lauk á mánudag, en hún var haldin á Egilsstöðum og stóð í þrjá daga.

Á sýningunni mátti sjá sýnishorn af vinnu handavinnuhópa í félagsstarfi eldri borgara á Héraði og er það afrakstur tveggja ára tímabils.

Helga Jóna Þorkelsdóttir og Sigríður Ingimarsdóttir kenna handavinnuhópunum. Að sögn Helgu Jónu eru bæði karlar og konur í hópunum, sem eru tveir og segir hún meðalaldurinn háan. Fjölbreytni einkenni handavinnuna og sumir séu að læra handtökin í fyrsta sinn.

Vandvirkni og eljusemi

Á sýningunni, sem var heilmikil veisla fyrir augað og bar eljusemi og vandvirkni fagurt vitni, mátti m.a. sjá harðangurs- og klaustursaum, þræðidúka, satínbandapúða, skuggasaum, brugðnar gjarðir, hekl og prjón af marvíslegum toga.

Munirnir voru ekki til sölu, en gestum bauðst kaffi og dáindisgott bakkelsi.

Aðsókn var þokkaleg, að sögn Helgu Jónu og meðal gesta má telja Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar, sem brá sér af flokksfundi til að líta á sýninguna.