ÞÓRSHAFNARHREPPUR og Svalbarðshreppur hafa formlega óskað eftir viðræðum við Samherja hf. um kaup á hlut Samherja í Hraðfrystihúsi Þórshafnar, HÞ. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Þórshafnar, staðfesti þetta við Morgunblaðið.

ÞÓRSHAFNARHREPPUR og Svalbarðshreppur hafa formlega óskað eftir viðræðum við Samherja hf. um kaup á hlut Samherja í Hraðfrystihúsi Þórshafnar, HÞ.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Þórshafnar, staðfesti þetta við Morgunblaðið. Hann sagði ástæðuna vera óánægju heimamanna með áherslur sem í rekstri HÞ en vildi ekki tilgreina frekar að svo stöddu í hverju hún felst. Hann segir sveitarfélögin í stakk búin til að leysa til sín hlut Samherja í HÞ og þegar liggi fyrir fjármögnun komi til þess. Björn á ekki von á öðru en viðræður geti hafist innan tíðar.

Samherji á tæplega 50% hlut í HÞ, að nafnvirði um 243 milljónir króna.

Hópur hluthafa í HÞ, undir forystu Rafns Jónssonar, útgerðarstjóra HÞ, og Hilmars Þórs Hilmarssonar, fyrrverandi starfsmanns HÞ, gerði sl. haust tilboð í allt hlutafé Samherja í HÞ. Ástæða tilboðsins var sú að hópurinn, sem á samanlagt um 25% í félaginu, var ekki sáttur við 1.360 milljóna króna kaup félagsins á fullvinnsluskipinu Þorsteini EA ásamt aflaheimildum frá Samherja. Bæði taldi hópurinn verðið of hátt og kaupin of mikla áhættu. Tilboðið rann út án þess að því væri tekið. Í kjölfarið höfðaði hópurinn mál gegn HÞ og Samherja en enn hefur ekki verið dæmt í því.