Bandaríkjamennirnir Nick Bradford úr Íslands- og bikarmeistaraliði Keflavíkur og Darrell Lewis úr Grindavík létu mikið að sér kveða með liðum sínum í vetur.
Bandaríkjamennirnir Nick Bradford úr Íslands- og bikarmeistaraliði Keflavíkur og Darrell Lewis úr Grindavík létu mikið að sér kveða með liðum sínum í vetur. — Morgunblaðið/Árni Torfason
ÁRSÞING Körfuknattleikssambands Íslands fer fram á Selfossi um næstu helgi og á þinginu verða bornar upp fjölmargar tillögur um breytingar á ýmsum reglugerðum KKÍ. Hæst ber tillögu frá stjórn KKÍ um breytingar á reglugerð um þátttöku í úrvalsdeild karla. Þar er lagt til að liðum í úrvalsdeild geti aðeins teflt fram tveimur leikmönnum hverju sinni sem eru með ríkisborgararétt utan Evrópu.

Á síðustu leiktíð var ekki um neinar hömlur að ræða á þessu sviði, en liðin áttu þess í stað að vinna með 500.000 kr. launaþak og semja við leikmenn sína með þeim hætti að heildarlaunagreiðslur hvers mánaðar færu ekki yfir hálfa milljón.

Að auki er lagt til að liðum verði ekki heimilt að bæta við erlendum leikmönnum eftir 5. janúar ár hvert. Félögum verður þó heimilt að skipta um erlenda leikmenn hvenær sem er á tímabilinu.

Í tillögu stjórnnar KKÍ er lagt til að launaþakið sem sett var á síðastliðið sumar verði útfært með öðrum hætti en áður. Liðum verður gert að starfa undir 300.000 kr. launaþaki á mánuði og er þá miðað við laun og hlunnindi samningsbundinna leikmanna. Miðað er við 10 mánaða tímabil ár hvert, frá júli og fram til loka apríl, ekki er heimilt að færa greiðslur á milli mánaða.

Mörg lið voru með allt að þrjá bandaríska leikmenn í sínum röðum á síðustu leiktíð og er markmiðið með tillögu KKÍ að auka vægi íslenskra leikmanna á ný án þess að skerða möguleika liða til þess að sækja liðsstyrk frá Evrópu, Bandaríkjunum eða öðrum löndum.

*UMSK leggur til að aðeins einum erlendum leikmanni verði leyft að leika með liðum í úrvalsdeild og að bannað verði að hafa erlenda leikmenn í röðum liða sem leika í 1. deild.

*ÍBR leggur til að reglugerð um þátttöku í úrvalsdeild verði felld úr gildi.

*Stjórn KKÍ leggur einnig til breytingar á venslasamningum á milli liða. Lið A getur þar með lánað tvo leikmenn til liðs B, og eru þeir leikmenn gjaldgengir með báðum liðum á viðkomandi leiktíð. Breytingin er sú að skila þarf inn öllum samningum fyrir 5. janúar ár hvert og geta lið því ekki fengið "liðsstyrk" frá öðrum liðum rétt fyrir úrslitakeppni eða lokabaráttuna í viðkomandi deild.

*Lagt er til af ÍBR að lið í efstu deild karla og kvenna ásamt liðum í 1. deild karla sé skylt að senda inn tölfræðiupplýsingar til KKÍ eigi síðar en 3 klst. eftir að leik lýkur. Það sama á að gilda um bikarkeppni KKÍ og fyrirtækjabikar KKÍ.

*Tvær breytingatillögur eru lagðar fyrir þingið um keppnisfyrirkomulag 1. deildar karla. ÍBR leggur til að efsta liðið að lokinni deildarkeppni öðlist sjálfkrafa rétt til þess að leika í úrvalsdeild en að liðin sem verða í 2.-5. sæti leiki til úrslita um eitt laust sæti til viðbótar. Lagt er til að sæmdarheitið Íslandsmeistari í 1. deild karla verði lagt af enda getur aðeins eitt lið orðið Íslandsmeistari ár hvert.

*ÍBR leggur til að tekið verði upp fastanúmerakerfi á búningum leikmanna í efstu deild . Leikmenn velja sér númer frá 0-99 og þarf að skila leikmannalista inn til KKÍ fyrir 1. október ár hvert.

*Að auki leggur ÍBR til að sektargreiðslur verði hækkaðar vegna liða sem ekki ná að uppfylla dómarakvóta sína ár hvert.