Gröfur Héraðsverks eru nú búnar að grafa ríflega 20 þúsund rúmmetra af efni frá fyrirhuguðum gangamunna Almannaskarðsganga.
Gröfur Héraðsverks eru nú búnar að grafa ríflega 20 þúsund rúmmetra af efni frá fyrirhuguðum gangamunna Almannaskarðsganga. — Morgunblaðið/Sigurður Mar
ÞAÐ gengur mikið á á vinnusvæðinu við Almannaskarðsgöng. Ingjaldur Ragnarsson, verkstjóri hjá Héraðsverki, segir að búið sé að grafa um 20 þúsund rúmmetra frá berginu en í allt verði um 35 þúsund rúmmetrar fluttir til.

ÞAÐ gengur mikið á á vinnusvæðinu við Almannaskarðsgöng. Ingjaldur Ragnarsson, verkstjóri hjá Héraðsverki, segir að búið sé að grafa um 20 þúsund rúmmetra frá berginu en í allt verði um 35 þúsund rúmmetrar fluttir til. Stór hluti þessa efnis mun hylja vegskála og er því mokað upp í stóra hauga báðum megin fyrirhugaðs gangamunna. Ingjaldur segir að nú í lok vikunnar verði allt klárt fyrir fyrstu sprengingar. Reyndar er það ekki fyrr en um miðjan júní sem norski verktakinn byrjar að bora sjálf göngin en fyrst þarf að sprengja lóðrétt stál, eða svokallað "splitt", í bergið báðum megin Almannaskarðs. Aðalverktaki er Héraðsverk hf. á Egilsstöðum sem er í eigu fjölmargra verktaka þar um slóðir. Því eru menn og tæki frá nokkrum fyrirtækjum að störfum undir Almannaskarði.

Menn frá Myllunni hf. á Egilsstöðum sprengja splittið að vestan en norðanmegin er það Hryðjuverk ehf. sem sér um að sprengja. Menn frá norska verktakafyrirtækinu Leonhard Nielsen og sønner koma um miðjan júní og hafa meðferðis borvagn sem étur sig í gegnum fjallið. Í byrjun maí verða reistar vinnubúðir fyrir um 30 manns á svæðinu og fjölgar starfsmönnum einnig um það leyti.

Malarvinnslan hf. hefur reist steypustöð á svæðinu og á næstunni verður sett upp malbikunarstöð sem að sögn Ingjalds var keypt frá norskum olíuborpalli. Þá munu Norðmennirnir reisa stóra dúkskemmu sem notuð verður sem verkstæði fyrir borvagninn. Í byrjun maí verða reistar vinnubúðir fyrir 30 manns á svæðinu og í kjölfarið fjölgar í vinnuflokknum. 35 manns munu vinna við framkvæmdina þegar flest er.

Hornafirði. Morgunblaðið.