ÍSLENSK knattspyrnufélög geta ekki fengið til sín ótakmarkaðan fjölda leikmanna frá ríkjunum sem fá inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið hinn 1. maí.

ÍSLENSK knattspyrnufélög geta ekki fengið til sín ótakmarkaðan fjölda leikmanna frá ríkjunum sem fá inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið hinn 1. maí. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að ákvæði um frjálsa för launafólks frá þessum ríkjum taki ekki gildi hér á landi að sinni, nema í tilfelli Kýpur og Möltu.

Hin ríkin eru Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland.

KSÍ tilkynnti í vikunni að vegna þessa myndu leikmenn frá þessum átta ríkjum áfram falla undir takmörkun á hlutgengi erlendra leikmanna hér á landi, en samkvæmt því má mest nota þrjá leikmenn frá ríkjum utan EES.

Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Morgunblaðið að með þessari tilkynningu væri ekki verið að bregðast við tilraunum íslenskra félaga til að fá til sín fleiri erlenda leikmenn en mögulegt væri.

Vildum koma í veg fyrir misskilning hjá félagsliðum

"Nei, við höfum ekki orðið varir við að slíkt væri í gangi. Það hefur reyndar ein fyrirspurn um þetta mál borist okkur en ég veit annars ekki til þess að lið hér á landi hafi verið í þeim hugleiðingum. Við vildum hins vegar kynna þetta fyrir félögunum svo ekki væri neinn misskilningur í gangi um þessi mál," sagði Geir.