VINNA er að hefjast við akademíska úttekt á Háskóla Íslands og mun það vera í fyrsta skipti sem slík úttekt, sem tíðkast víða við skóla erlendis, er framkvæmd hér á landi. Þá vinnur Ríkisendurskoðun að fjármála- og stjórnsýsluúttekt á HÍ.

VINNA er að hefjast við akademíska úttekt á Háskóla Íslands og mun það vera í fyrsta skipti sem slík úttekt, sem tíðkast víða við skóla erlendis, er framkvæmd hér á landi. Þá vinnur Ríkisendurskoðun að fjármála- og stjórnsýsluúttekt á HÍ. Þessi þríþætta úttekt er gerð að frumkvæði menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, og er niðurstaðna að vænta fyrir októberlok.

Inga Dóra Sigfúsdóttir félagsfræðingur hefur yfirumsjón með akademísku úttektinni í samstarfi við Allyson Macdonald, forstöðumann Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands, og Irwin Feller, bandarískan sérfræðing í mati á háskólastarfi. Að sögn Ingu Dóru mun úttektin snúa að því að skoða rannsóknarstörf skólans og framlag hans í þágu íslenskra vísinda sem og vísindaiðkunar á erlendum vettvangi með samanburði við skóla erlendis og innanlands. Þá verða skoðuð tengsl skólans við ýmsa aðila í íslensku samfélagi og framlag hans í því tilliti.