Í lýðræðisríki á að vera óhugsandi að einn eða fáir ráði öllu og einn eða fáir eigi allt. Frumvarpið er hins vegar vanhugsað og miðar að því að styrkja óréttláta samkeppnisstöðu ríkismiðlanna.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum er gallaður gjörningur, ekki vegna þess að ótækt sé að setja slík lög heldur fyrir þá sök m.a. að eðlileg skilyrði fyrir rekstri ljósvakamiðla hafa ekki verið sköpuð á Íslandi. Vernduð yfirburðastaða Ríkisútvarpsins gerir að verkum að einkaframtakið er heft á þeim vettvangi. Frumvarp það sem nú liggur fyrir er fallið til að styrkja þá stöðu enn frekar. Um frumvarp ríkisstjórnarinnar gildir því að byrjað er á röngum enda.

Árum saman hefur það blasað við að stjórnmálamenn hefta þróun einkarekinna ljósvakamiðla á Íslandi með því að tryggja Ríkisútvarpinu algjöra sérstöðu í samkeppni á þessum markaði. Um leið hefur stofnuninni verið gert kleift að haga rekstri sínum án tillits til markaðsaðstæðna. Lögbundin afnotagjöld tryggja stofnuninni öruggar tekjur og engar sveiflur verða á þeim vettvangi. Afnotagjöldin, sem eru í raun skattur á almenning vegna notkunar á ákveðnum heimilistækjum, hefur ríkisvaldið síðan hækkað að vild líkt og tvívegis hefur verið gert á þessu ári þrátt fyrir loforð um skattalækkanir.

Um leið og stofnuninni hefur verið gert kleift að haga rekstri sínum án tillits til aðstæðna á markaði hefur fyrirtækið tekið fullan þátt í þeirri baráttu sem fram fer á þeim sama markaði um auglýsingatekjur. Stofnunin lætur nú til sín taka á óskyldum sviðum og rekur m.a. SMS-þjónustu og netverslun.

Þetta fyrirkomulag er svo galið að hreinum undrum sætir.

Nú hefur fengist tæplega 20 ára reynsla af rekstri einkarekinna ljósvakamiðla á Íslandi. Tæpast kemur á óvart að reksturinn hafi gengið erfiðlega. Barátta um takmarkaðar auglýsingatekjur hefur getið af sér þvílíka einhæfni, einkum á sviði útvarpsrekstrar, að leitun er að öðru eins. Með því að taka þátt í þeirri baráttu stuðlar ríkisvaldið að fábreytni á þessu sviði þjóðlífsins.

Til eru þeir sem efast um réttmæti þess að ríkisvaldið reki fjölmiðla. Trúlega mynda þeir jaðarhóp í samfélaginu líkt og jafnan er hlutskipti efahyggjumanna. Íslenskir stjórnmálamenn fylla almennt og yfirleitt ekki hóp þeirra sem telja efann eina af forsendum spurnar og jafnvel framfara.

Nú segja íslenskir stjórnmálamenn að "styrkja þurfi Ríkisútvarpið". Hvað felst í þessum orðum umfram hótun um frekari skattahækkanir? Eru menn ef til vill að ræða eina ferðina enn um "menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins"? Hvernig getur nokkur maður sem skoðar dagskrá annarra ríkismiðla en Rásar 1 haldið því fram að þessir miðlar standi með einhverjum hætti vörð um íslenska menningu eða styrki hana? Núverandi fyrirkomulag, samkeppni við einkarekna afþreyingarmiðla, er einmitt fallið til þess að stofnunin geti ekki uppfyllt þetta hlutverk sem svo margir upphefja. Með því að hætta þeirri samkeppni mætti nýta fjármuni til innlendrar dagskrárgerðar og sinna menningunni sem mun vera svo viðkvæm að hana þarf að vernda sérstaklega.

Með réttu hefðu stjórnmálamenn fyrir löngu átt að skilgreina hlutverk og verksvið Ríkisútvarpsins með tilliti til þess að rekstur ljósvakamiðla hefur verið gefinn frjáls á Íslandi. Þeir hafa haft tæp 20 ár til að sinna þessu verkefni! Með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði, leggja niður afnotagjöld, þrengja verksviðið og setja reksturinn á fjárlög hefði mátt tryggja stofnuninni ákveðna sérstöðu og um leið skapa svigrúm á markaði til þess að einkastöðvar fengju þrifist. Þannig hefði ríkisvaldið getað lagt sitt af mörkum til að fjölbreytni ríkti á þessu sviði.

Samþjöppun í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar var öldungis fyrirsjáanleg. Við henni hefðu stjórnmálamenn átt að bregðast með því að laga leikreglur að nýjum veruleika og íslenskum aðstæðum. Nú er það trúlega um seinan. Örfáar viðskiptasamsteypur eiga landið; nokkrir (karl)menn hafa öll ráð og afkomu mikils fjölda fólks í hendi sér.

Nú bregðast stjórnmálamenn við þróuninni á einu afmörkuðu sviði þjóðlífsins. Það virðist sjálfsagt, eðlilegt og af hinu góða að samþjöppun einkenni allt atvinnu- og viðskiptalíf þjóðarinnar. Sömu karlarnir mega eiga allt og ráða öllu nema fjölmiðlunum.

Í þróuðu lýðræðisríki eiga sömu reglur að gilda um pólitísk völd og eignir. Í slíku samfélagi á að vera útilokað og óhugsandi að einn eða fáir ráði öllu og einn eða fáir eigi allt.

Vitanlega er það ástand fráleitt að einn maður eða ein auðsteypa geti eignast alla einkarekna fjölmiðla á Íslandi. Að því leyti er hugsunin að baki fjölmiðlafrumvarpinu rétt og í raun svo sjálfsögð að um hana ætti ekki að þurfa að ræða. Hana hefði frekar átt að fella að öðrum sviðum viðskiptalífsins fyrir löngu.

Sökum þeirrar verndar sem fjölmiðlar ríkisins njóta í samkeppni við einkastöðvar er frumvarpið ekki fallið til að ýta undir aukna fjölbreytni á markaði. Mun viturlegra hefði verið að fara "norsku leiðina" sem Morgunblaðið greinir frá í dag og í gær og tengja saman eignarhald og markaðshlutdeild á öllum sviðum fjölmiðlunar. Íslenska frumvarpið er vanhugsað og miðar einkum að því að styrkja enn frekar stöðu ríkismiðlanna. Það er fráleitt.

Íslensk stjórnmál eru stjórnmál kyrrstöðu og fálmkenndra viðbragða við atburðum og þróun í stað stefnumótunar á grundvelli hugsjóna og sýnar til framtíðarinnar. Ókostir þessarar frumstæðu stjórnmálahefðar blasa nú við hverjum sem greina vill.

Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is