Forstjórar Kristján Kristjánsson ræddi við þá John Watkinson og Derek Lovelock í pallborðsumræðum á Baugsdeginum í Háskólanum í Reykjavík.
Forstjórar Kristján Kristjánsson ræddi við þá John Watkinson og Derek Lovelock í pallborðsumræðum á Baugsdeginum í Háskólanum í Reykjavík.
JOHN Watkinsson, forstjóri breska leikfangafyrirtækisins Hamleys, og Derek Lovelock, forstjóri breska tískufyrirtækisins Oasis, voru á einu máli um það að samvinnan við Baug Group um uppkaup á fyrirtækjum þeirra hefði verið ánægjuleg í alla staði.

JOHN Watkinsson, forstjóri breska leikfangafyrirtækisins Hamleys, og Derek Lovelock, forstjóri breska tískufyrirtækisins Oasis, voru á einu máli um það að samvinnan við Baug Group um uppkaup á fyrirtækjum þeirra hefði verið ánægjuleg í alla staði. Þetta kom fram í máli þeirra á Baugsdeginum sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík í gær.

Á síðasta ári tók Baugur þátt ásamt helstu stjórnendum Hamleys í að kaupa félagið og færa það í einkaeigu en félagið hafði verið skráð á markað í Bretlandi. Oasis aftur á móti hafði verið tekið af markaði árið 2001 þegar PPM Ventures tók þátt í yfirtöku stjórnenda á félaginu. Baugur keypti síðan félagið í fyrra í samstarfi við stjórnendur þess og KB banka.

Watkinson sagði meðal annars að Baugsmenn væru einbeittir, hefðu yfir mikilli þekkingu að ráða og styddu vel við bakið á sínum samstarfsmönnum. Þá sagði Watkinson að Baugur hefði sömu markmið og stjórnendur Hamleys og horft væri til framtíðar með rekstur félagsins.

Oasis stefnir að yfirtöku

Í pallborðsumræðum eftir erindi forstjóranna tveggja kom það fram í máli Lovelocks að Oasis stefndi að yfirtöku annarra fyrirtækja í sömu grein og vildi bæta við sig vörumerkjum í framtíðinni, en félagið rekur í dag verslanir undir merkjum Oasis og Coast. Félagið vildi þannig stækka og sækja fram á alþjóða markaði. Þá sagði Lovelock spurður um það hvort félagið myndi hugsanlega fara aftur á hlutabréfamarkað í framtíðinni, að hann byggist við því að sú þróun sem verið hefur í Bretlandi um hríð, að verslunarfyrirtæki séu tekin af markaði og færð í einkaeigu, myndi snúast við einn daginn og fyrirtæki myndu fara aftur á markað, en þó ekki, eins og í tilfelli Oasis, fyrr en félagið er búið að stækka og styrkjast.