FRAM kom á Alþingi í gær að þingmenn hafa miklar áhyggjur af atvinnumálum á Suðurnesjum en Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra upplýsti að af þeim rúmlega hundrað einstaklingum sem sagt var upp störfum hjá varnarliðinu í nóvember sl.

FRAM kom á Alþingi í gær að þingmenn hafa miklar áhyggjur af atvinnumálum á Suðurnesjum en Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra upplýsti að af þeim rúmlega hundrað einstaklingum sem sagt var upp störfum hjá varnarliðinu í nóvember sl., væri þriðjungur, eða um þrjátíu, enn án atvinnu. Sagði hann aukinheldur að varnarliðið hefði tilkynnt að á næstu tveimum mánuðum yrði hugsanlega farið út í frekari hagræðingaraðgerðir sem gætu falið í sér frekari uppsagnir.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, var málshefjandi umræðunnar. Sagði hann að takast þyrfti á við þær breytingar sem fylgdu brottför bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. "Heimamenn og stjórnvöld eiga að taka höndum saman og það á að semja um aðlögunaráætlun," sagði þingmaðurinn og benti á að Bandaríkjamenn hefðu í sambærilegum aðstæðum fallist á aðlögunargreiðslur til starfsmanna eða atvinnuuppbyggingar.

Halldór Ásgrímsson sagði það að sjálfsögðu mjög sárt þegar fólk missti vinnu sína. Í umræddu tilviki tengdist það sparnaðaraðgerðum og niðurskurði í fjárlögum flotastöðvar Bandaríkjamanna hér á landi. Hann fjallaði síðan um uppsagnirnar hjá varnarliðinu á síðasta ári og sagði: "Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa aðeins 35 af þessum 100 aðilum fengið atvinnu; um það bil einn fimmti hefur farið á eftirlaun, en um það bil einn þriðji er því miður enn þá atvinnulaus, en fjórtán af þessum einstaklingum hafa fengið aðra vinnu hjá varnarliðinu."

Frekari hagræðingaraðgerðir

Halldór sagði enn fremur að þeir fjórtán, sem sagt var upp til viðbótar hjá varnarliðinu fyrir um það bil viku, hefðu starfað á gistiheimili á vellinum. "Þá hefur varnarliðið tilkynnt að á næstu tveimum mánuðum verði hugsanlega farið í frekari hagræðingaraðgerðir, sem geti falið í sér frekari uppsagnir," upplýsti hann. "Við í utanríkisráðuneytinu höfum tekið það skýrt fram við varnarliðið að það væri mjög mikilvægt að hafa nána samvinnu við stéttarfélög starfsmanna áður en til nokkurra aðgerða væri gripið."

Halldór tók skýrt fram að hann deildi áhyggjum þingmanna af atvinnumálum á Suðurnesjum. Hann benti þó á að ýmislegt væri jákvætt við atvinnumál á Suðurnesjum og vísaði m.a. til þess að umtalsverður vöxtur hefði verið í starfsemi annarra fyrirtækja en þeirra sem tengdust varnarliðinu. Meðal annars væri verið að byggja þar orkumannvirki vegna stóriðju. "Það er í sjálfu sér líka jákvætt að atvinnuleysi var minna í marsmánuði núna en fyrir ári síðan. En hins vegar er atvinnuleysi meira á Suðurnesjum en landsmeðaltal hefur gefið til kynna."

Steingrímur gerði í framsögu sinni stöðu varnarviðræðna Bandaríkjamanna og Íslendinga einnig að umtalsefni. Sagði hann reyndar vandræðalegt að fylgjast með því máli. "Það hvorki gengur né rekur í viðræðunum og ekkert bólar á framhaldi," sagði hann. "Forsætisráðherra og utanríkisráðherra eru jafnvel tvísaga; forsætisráðherra boðaði viðræður í síðasta mánuði eða þessum sem utanríkisráðherra kannast ekkert við. Og ekkert bólar á neinu. Og þá má ekki gleyma símtalinu fræga í Nýju-Jórvík á dögunum þegar Bush þakkaði forsætisráðherra fyrir stuðninginn við Íraksstríðið og vildi að hann flytti íslensku þjóðinni jákvæð skilaboð. Því símtali var síðan fylgt eftir nokkrum dögum seinna með uppsögnum fjórtán starfsmanna hjá hernum í Keflavík." Spurði hann því næst utanríkisráðherra frétta af viðræðunum.

Bíða enn eftir viðbrögðum

Ráðherra svaraði því til að ríkisstjórnin hefði komið sínum sjónarmiðum og stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum skilmerkilega á framfæri við Bandaríkjamenn. "Og því miður bíðum við enn þá eftir frekari viðbrögðum þeirra í málinu." Bætti hann því við að nú stæði yfir endurskoðun á heildarliðsaflaþörf Bandaríkjahers í Evrópu, eins og þingmanni væri kunnugt um. "Þessi staða hefur áður verið rædd hér á Alþingi og það er í sjálfu sér engu við það að bæta." Hann ítrekaði í þessu sambandi að íslensk stjórnvöld legðu þunga áherslu á að halda þeim varnarviðbúnaði sem væri til staðar hér á landi. Sagði hann jafnframt ljóst að hægt yrði að halda varnarviðbúnað hér þótt einhver sparnaður yrði og samdráttur í rekstri.