"Er ekki annað hægt en að segja að þetta samstarfsverkefni Listaháskólans og Íslensku óperunnar hafi heppnast prýðilega," segir m.a. í umsögn.
"Er ekki annað hægt en að segja að þetta samstarfsverkefni Listaháskólans og Íslensku óperunnar hafi heppnast prýðilega," segir m.a. í umsögn. — Morgunblaðið/Sverrir
eftir Jóhann Strauss, (stytt útgáfa). Samstarfsverkefni Íslensku óperunnar og Listaháskóla Íslands Hljómsveitarstjóri: Gunnsteinn Ólafsson; leikstjóri: Pétur Einarsson. Fram komu nemendur úr ýmsum tónlistarskólum og úr tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Í helstu hlutverkum voru Jóhannes Haukur Jóhannesson, Árni Gunnarsson, Erlendur Elvarsson, Bragi Bergþórsson, Ólafía Línberg Jensdóttir og Þórunn Elín Pétursdóttir.

HEIMSKUR svínabóndi, þjófóttir sígaunar, falinn fjársjóður, ströng siðgæðisvarsla, ást í meinum og stríð á Spáni eru efni sögunnar um Sígaunabaróninn sem Jóhann Strauss gerði ódauðlega með samnefndri óperu sinni. Stytt útgáfa hennar var sýnd í Gamla bíói um helgina og var það samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Íslensku óperunnar. Þó voru það ekki einvörðungu nemendur Listaháskólans sem sungu og léku; fjölmargir nemendur úr öðrum skólum komu einnig við sögu, sumir hverjir í veigamiklum hlutverkum. Þessir skólar voru Nýi tónlistarskólinn, Tónlistarskólinn í Reykjavík og Tónlistarskóli Kópavogs. Því miður var ekki að finna í tónleikaskránni neinar upplýsingar um hvaða skóla hver nemandi var í, sem hefði verið fróðlegt að vita. Auk þess var textinn um verkið í tónleikaskránni heldur rýr miðað við það sem gengur og gerist í almennum óperuuppfærslum.

Sígaunabaróninn er vinsæl ópera, enda er músíkin grípandi blanda sígauna- og Vínartónlistar, og er sagan bæði spennandi og fyndin. Húmorinn komst vel til skila í markvissri og hugmyndaríkri leikstjórn Péturs Einarssonar; leikur velflestra söngvaranna var þægilega blátt áfram og laus við ýkjustílinn sem oft einkennir svona sýningar.

Þessu leiðinlega sleppt?

Eins og áður sagði var þetta stytt útgáfa óperunnar og var það Elísabet Erlingsdóttir söngkona sem sá um þann niðurskurð. Ólíkt flestum öðrum niðurskurðum kom hann ágætlega út - það var aðeins á einstaka stöðum sem maður varð var við óþægilegar stökkbreytingar í framvindu sögunnar. Til gamans má geta að píanóleikarinn frægi, Liberace, stytti allan fyrsta píanókonsert Tchaikovskys niður í litlar fimm mínútur með því að "sleppa þessu leiðinlega" eins og hann orðaði það, en þannig var það ekki hér. Stytting Elísabetar var eins sannfærandi og stytting getur orðið; heildarsvipurinn bjagaðist aldrei, allir meginþættir sögunnar fengu að njóta sín og engu "leiðinlegu" hafði verið sleppt.

Útlitslega gekk sýningin ágætlega upp; mér skilst að sviðsmyndin hafi verið sú sama og notuð var í Brúðkaupi Fígarós, síðustu uppfærslu Íslensku óperunnar, en hana sá ég ekki. Sviðsmyndin var af fallegu torgi sem var rammað inn af tignarlegum veggjum og súlum; auðvitað langt frá eiginlegri sviðsmynd Sígaunabarónsins, kastala í fjarlægð, bóndabæ og sígaunakofa. Augnagotur, bendingar og aðrar tilvísanir gáfu þó ímyndunaraflinu byr undir báða vængi og var alls ekki erfitt að sjá fyrir sér land og byggingar handan við torgið.

Lítt skólaðir söngvarar

Þar sem um nemendauppfærslu var að ræða verður ekki farið út í að tíunda frammistöðu einstakra söngvara eða hljómsveitarinnar, sem líkt og söngvararnir samanstóð af nemendum úr fyrrgreindum tónlistarskólum. En nokkuð greinilegt var að sumir söngvaranna voru lítt skólaðir; einn og einn var jafnvel öfugum megin við fimmta stig. Hlýtur maður að spyrja sig hvaða gagn slíkir nemendur hafa af því að spreyta sig á jafn krefjandi verki og Sígaunabaróninn er. Það er svona álíka og að nemandi á miðstigi í píanóleik færi að æfa fyrrnefndan fyrsta píanókonsert Tchaikovskys, og flytti hann opinberlega með hljómsveit. Þannig átök, áður en nemandinn er tilbúinn, gætu valdið því að hann tileinkaði sér ranga líkamsbeitingu og aðra ósiði sem torvelt væri að lækna. Því miður þekki ég nokkur dæmi um slíkt.

Hvað sem þessu viðvíkur var þetta ekki leiðinleg sýning og hélt Gunnsteinn Ólafsson hljómsveitarstjóri utan um allt eins vel og hægt var. Áheyrendur hlógu dátt oftar en einu sinni og greinilegt var að sumir nemendanna eru býsna efnilegir. Vonandi verður þessi uppfærsla þeim aðeins til góðs.

Jónas Sen