Arnór Atlason, skytta KA, skorar eitt marka sinna gegn Haukum, en alls skoraði hann 10 mörk.
Arnór Atlason, skytta KA, skorar eitt marka sinna gegn Haukum, en alls skoraði hann 10 mörk. — Morgunblaðið/Kristján
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KA-MENN stóðu við loforð sitt um að skemmta áhorfendum á heimavelli og sigra Hauka í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins. Mikil stemmning var í KA-heimilinu og eftir jafna byrjun tóku heimamenn rækilegan fjörkipp undir lok fyrri hálfleiks og í upphafi seinni hálfleiks. Þessi frábæri kafli skilaði KA 7 marka forystu og það var of stór biti fyrir Hauka að kyngja. Lokatölur urðu 33:29 og ljóst að barist verður til þrautar í oddaleik eins og flestir höfðu búist við.

Leikurinn var hin ágætasta skemmtun og bauð upp á mikil og fjölbreytt tilþrif. Haukar byrjuðu með sína rammgerðu flötu vörn og varnarmenn KA héldu sig líka við línuna nema Jónatan Magnússon sem tók Ásgeir Örn Hallgrímsson úr umferð nánast allan leikinn. Mikið mæddi því á Andra Stefan og Halldóri Ingólfssyni fyrir utan í sókn Haukanna en Robertas Pauzuolis lék aðeins í vörninni, væntanlega vegna meiðsla.

Fyrri hálfleikur var jafn og harður. Leikmönnum KA var 6 sinnum vikið af velli og Haukum fjórum sinnum. Gestirnir gengu á lagið og náðu 3 marka forskoti eftir ríflega 20 mínútna leik en heimamenn jöfnuðu. Staðan var 13:13 þegar 3 mínútur voru eftir af hálfleiknum. Þá voru tveir KA-menn sendir út af með stuttu millibili en samt sem áður tókst KA að skora tvö síðustu mörkin og breyta stöðunni í 15:13 fyrir leikhlé.

Sjálfstraust drengjanna í KA virðist hafa tútnað út eftir þennan laglega endasprett í fyrri hálfleik því þeir komu dansandi til leiks eftir hressingu í hléinu og röðuðu inn 5 mörkum í röð. Staðan skyndilega orðin 20:13 og góð ráð dýr fyrir Hauka.

Haukar reyndu ýmsar varnir

Björn Viðar Björnsson kom í markið í stað Birkis Ívars Guðmundssonar. Haukar reyndu ýmis varnarafbrigði. Þeir höfðu byrjað á því að taka Arnór Atlason úr umferð en þá losnaði um Jónatan Magnússon og það sem eftir lifði leiks reyndu Haukar ýmist að taka þá báða eða annan hvorn úr umferð og undir það síðasta voru þeir farnir að leika vörnina framar en ekkert gekk. Þeim tókst þó að minnka muninn niður í 3 mörk á tímabili en komust ekki lengra og sigur KA var öruggur.

Arnór Atlason skoraði 10 mörk fyrir KA og réðu Haukar lítið við þennan fjölhæfa handboltamann í fyrri hálfleik. Stefán Guðnason varði mjög vel í fyrri hálfleik og varnarleikurinn var öflugur eins og sést t.d. á því að Haukar skoruðu aðeins 1 mark af línu. Jónatan Magnússon og Einar Logi Friðjónsson tóku létta spretti í seinni hálfleik og röðuðu inn mörkum og raunar átti Jónatan stórleik í vörn og sókn. Þá var Andrius Stelmokas sterkur að vanda.

Hjá Haukum var Andri Stefan öflugur og skoraði 9 mörk. Halldór Ingólfsson læddi inn slatta af mörkum af gömlum vana en aldrei þessu vant skorti breidd í liðið og fleiri afgerandi markaskorara. Birkir Ívar varði ágætlega í fyrri hálfleik og vörnin var góð á köflum.

Stefán Þór Sæmundsson skrifar