ARNÓR Atlason stórskytta KA-manna og væntanlegur leikmaður Magdeburg var ánægður eftir góðan leik og öruggan sigur. Hvað skyldi hann hafa verið að hugsa þegar KA sneri leiknum sér í hag? "Hugsun mín snerist aðeins um eitt. Ég ætlaði ekki að láta þetta verða síðasta leik minn á Íslandi, það kom ekki til greina að kveðja núna. Og ég ætla að spila aftur í KA-heimilinu, það er alveg pottþétt.

Þetta var ótrúlega gaman. Við spiluðum fyrir hálftómu húsi á Ásvöllum og náðum ekki að gíra okkur upp en nú var alvöru stemmning og spenna og við þrífumst á slíku andrúmslofti. Okkur tókst að krækja í oddaleikinn og við ætlum að vinna hann, sagði Arnór.

Ætlum að fagna á heimavelli

Hinn rammgöldrótti og gamalreyndi fyrirliði Hauka, Halldór Ingólfsson, hafði ekki á takteinum óyggjandi skýringar á þessu tapi en taldi úrslitin hafa ráðist í upphafi seinni hálfleiks.

"Við áttum mjög slæman leikkafla undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun seinni hálfleiks og við náðum ekki að brúa bilið sem skapaðist þá. Það er erfitt að vinna upp sjö marka forystu og þótt við færum langt með það tókst það ekki."

-Þið keyrðuð mikið á sama mannskap fyrir utan þótt Ásgeir Örn væri tekinn úr umferð allan tímann. Hefði ekki verið rétt að prófa Robertas Pauzuolis í sókninni?

"Þetta var lagt svona upp núna og við eigum alveg að geta leyst þetta mjög auðveldlega. Við reyndum ýmislegt en það gekk ekki upp að þessu sinni en við ætlum svo sannarlega að fagna sigri á heimavelli," sagði Halldór.