Dagný  Skúladóttir
Dagný Skúladóttir
DAGNÝ Skúladóttir, landsliðskona í handknattleik, sem leikur með þýska 1. deildarliðinu TV Lützellinden, kemur til með að reyna fyrir sér á öðrum vígstöðvum á næstu leiktíð. TV Lützellinden er gjaldþrota og hefur verið dæmt til að leika í 3.

DAGNÝ Skúladóttir, landsliðskona í handknattleik, sem leikur með þýska 1. deildarliðinu TV Lützellinden, kemur til með að reyna fyrir sér á öðrum vígstöðvum á næstu leiktíð. TV Lützellinden er gjaldþrota og hefur verið dæmt til að leika í 3. deildinni á næstu leiktíð en félagið hefur um árabil verið eitt sterkasta kvennalið Þýskalands og í Evrópu og hefur hampað mörgum meistaratitlum á liðnum árum. TV Lützellinden hefur samfleytt í 22 ár átt lið í efstu deild og á þessum tíma hefur liðið orðið sjö sinnum þýskur meistari, fimm sinnum bikarmeistari og hefur í þrígang unnið Evrópumeistaratitil.

Dagný hefur staðið sig mjög vel með liðinu á yfirstandandi leiktíð og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins á hún í viðræðum við tvö lið úr þýsku 1. deildinni.

Dagný skoraði 3 mörk fyrir TV Lützellinden í fyrrakvöld þegar liðið steinlá fyrir Nürnberg, 33:21, en Nürnberg vann sem kunnugt er ÍBV stórt í tveimur leikjum í undanúrslitum Áskorendakeppninnar. Lützellinden er í 9. sæti af 12 liðum en Nürnberg í öðru sæti, fimm stigum á eftir Frankfurt.