David Holmes
David Holmes
Í KVÖLD og á morgun verður haldin danstónlistarhátíð á Kapital þar sem í fararbroddi verða David Holmes og Nightmares og Wax, miklar kanónur í heimi raf- og danstónlistar.

Í KVÖLD og á morgun verður haldin danstónlistarhátíð á Kapital þar sem í fararbroddi verða David Holmes og Nightmares og Wax, miklar kanónur í heimi raf- og danstónlistar. Ásamt þeim leikur fjöldi innlendra tónlistarmanna en þeir eru Midijokers, Delphi, Margeir, Alfons X/ Reynir, Kalli, Lelli, Gunni Ewok, Ingvi, Bjössi Brunahani og fleiri. Þeir sem standa að þessu "mini-festivali" eru hr. Örlygur, Breakbeat.is og BeatKamp.

Í tilkynningu frá aðstandendum segir að fletir flestra geira danstónlistarinnar verði handfjatlaðir á hátíðinni. Allt frá "hugljúfu húsi, pumpandi progressive til dúndrandi drum'n'bass."

Holmes og Wax

David Holmes er að verða að goðsögn innan danstónlistarheima, ekki hvað síst vegna þess hversu fjölhæfur hann er. Hann er fyrsta flokks plötuþeytir en hefur einnig gefið út frábærar og frumlegar plötur eins og Let's Get Killed frá 1997 ásamt því að gera tónlist við kvikmyndir (t.d. Out of Sight, Oceans Eleven og Analyze That). Blandplötur eru þá margar og hann hefur stjórnað upptökum fyrir sveitir eins og Manic Street Preachers og Primal Scream.

Nightmares On Wax (George Evelyn) var ein fyrsta sveitin til að vekja athygli hjá hinni framsæknu útgáfu Warp og hafa nokkrar N.O.W. breiðskífur komið út á þeirra vegum , t.d. hin snilldarlega Carboot Soul ('99).

N.O.W. spila mjúka og seiðandi raftóna þar sem elektró, hipp hopp og "chill out" kemur allt við sögu.

Aðgangseyrir er 1.500 krónur hvert kvöld við dyr. Hægt er að kaupa miða fyrir báða dagana í 12 Tónum og kostar miðinn 2.000 krónur. Hátíðirnar hefjast klukkan 22.00.

arnart@mbl.is