Sturlaugur Sturlaugsson
Sturlaugur Sturlaugsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BREYTT stjórnskipulag HB Granda tekur gildi nú um mánaðamótin, en samruni HB og Granda miðast við 1. janúar 2004. Forstjóri HB Granda hf. verður Sturlaugur Sturlaugsson og aðstoðarforstjóri verður Kristján Þ. Davíðsson.

BREYTT stjórnskipulag HB Granda tekur gildi nú um mánaðamótin, en samruni HB og Granda miðast við 1. janúar 2004. Forstjóri HB Granda hf. verður Sturlaugur Sturlaugsson og aðstoðarforstjóri verður Kristján Þ. Davíðsson.

Yfirmenn fjármála, útgerðar, landvinnslu og veiða og vinnslu uppsjávarfisks verða sömu menn og áður stýrðu þessum deildum hjá Granda hf.; Jóhann Sigurjónsson fjármálastjóri, Rúnar Þór Stefánsson útgerðarstjóri, Svavar Svavarsson framleiðslustjóri og Torfi Þ. Þorsteinsson deildarstjóri uppsjávarfiskdeildar.

Haraldur Sturlaugsson verður yfirmaður starfsmanna- og umhverfismála. Nýr fjárreiðustjóri er Bergþór Guðmundsson, sem gegnt hefur starfi fjármálastjóra Haraldar Böðvarssonar hf. mörg undanfarin ár.

Höfuðstöðvar og aðalskrifstofa verða í Reykjavík og þar mun yfirstjórn fyrirtækisins hafa aðsetur. Undanskildir eru þó yfirmenn uppsjávarfiskdeildar og starfsmanna- og umhverfismála, auk fjárreiðustjóra, en þeir munu hafa aðsetur á Akranesi. Aukin áhersla verður lögð á markaðsmál og hefur Eggert B. Guðmundsson verið ráðinn markaðsstjóri til að efla þann þátt starfseminnar.

Einfalda og hagræða

Grandi hf. keypti 100% hlutafjár Haraldar Böðvarssonar hf. fyrir 7.800 milljónir króna. Vegna kaupanna var stofnað til skulda samtals að fjárhæð um 3.000 milljónir króna, en 4.800 milljónir króna voru greiddar með reiðufé Granda. Þar af fengust 985 milljónir króna við sölu á þeim tæplega 10% af eigin hlutum félagsins, sem heimamenn á Akranesi keyptu. Annað reiðufé fékkst að mestu við sölu á eignarhlutum Granda hf. í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þegar við kaup Granda hf. á Haraldi Böðvarssyni hf. hófst vinna við samræmingu og hagræðingu í rekstri, enda var strax gert ráð fyrir samruna félaganna.

Heildarbotnfiskkvóti félagsins á fiskveiðiárinu sem er að líða er tæp 56.000 tonn og áætlað að úthlutaður kvóti af uppsjávartegundum verði samtals um 177.000 tonn á árinu.

Rekstur skipa HB Granda hf., sem eru samtals 12 talsins, 5 frystiskip, 4 ísfiskskip og 3 uppsjávarveiðiskip, hefur þegar verið samræmdur.

Vinnsla fiskiðjuveranna í Reykjavík og á Akranesi verður sérhæfð á þann hátt að í Reykjavík verður unninn karfi og ufsi en á Akranesi þorskur og ýsa. Gert er ráð fyrir að í Reykjavík verði árlega unnið úr um 20.000 tonnum af hráefni og á Akranesi úr um 10.000 tonnum. Bæði fiskiðjuverin munu leggja aukna áherslu á vinnslu ferskra afurða og keypt hefur verið ný sérhæfð vinnslulína fyrir ferskar afurðir sem sett verður upp á Akranesi í maímánuði. Öll frysting uppsjávarfisks og loðnuhrogna verður á Akranesi. Heildarfjöldi starfa HB Granda hf. verður um 600.