Íslandsmeistaramót í dansi verður haldið helgina 1. og 2. maí í Laugardalshöllinni. Á laugardeginum fer fram Íslandsmeistaramót í línudönsum. Keppt er í fjórum aldurshópum og hafa skráð sig til leiks 22 hópar víðsvegar að af landinu.
Íslandsmeistaramót í dansi verður haldið helgina 1. og 2. maí í Laugardalshöllinni. Á laugardeginum fer fram Íslandsmeistaramót í línudönsum. Keppt er í fjórum aldurshópum og hafa skráð sig til leiks 22 hópar víðsvegar að af landinu. Á sunnudeginum fer fram Íslandsmeistaramót í gömlu dönsunum. Þar er einnig keppt í öllum aldursflokkum og dönsurum skipt í hópa eftir styrkleika. Yngstu dansararnir sem eru að byrja þátttöku í keppni munu koma fram og sýna nokkra dansa.

Samhliða þessum Íslandsmeistaramótum mun fara fram Bikarmót DSÍ í samkvæmisdönsum með frjálsri aðferð. Fimm erlendir dómarar munu dæma allar keppnirnar nema Íslandsmeistaramótið í gömlu dönsunum. Það mót dæma íslenskir dómarar frá Dansráði Íslands.

Húsið verður opnað kl. 10 og hefst keppnin kl. 11 báða dagana Aðgangseyrir er kr. 1.200 dagurinn en ef keyptur er aðgangur fyrir báða dagana kr. 2.000. Frítt er á keppnina fyrir eldri borgara og börn undir skólaaldri.

Mótanefnd Dansíþróttasambands Íslands er skipuleggjandi mótsins.