Hlynur Hallsson: Ekki viss um að Tyrkir yrðu sérstaklega ánægðir ef þeir sæju hve stórt svæði ég tek af Asíuhluta Tyrklands fyrir Kúrdaland.
Hlynur Hallsson: Ekki viss um að Tyrkir yrðu sérstaklega ánægðir ef þeir sæju hve stórt svæði ég tek af Asíuhluta Tyrklands fyrir Kúrdaland. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
HLYNUR Hallsson sýnir um þessar mundir í Gallery 02 á Akureyri og ber sýningin yfirskriftina New Frontiers. Ný landamæri. Þar vísar listamaðurinn í John F.

HLYNUR Hallsson sýnir um þessar mundir í Gallery 02 á Akureyri og ber sýningin yfirskriftina New Frontiers. Ný landamæri. Þar vísar listamaðurinn í John F. Kennedy, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, "en honum varð tíðrætt um hugtakið í kosningabaráttunni 1960," sagði Hlynur í spjalli við Morgunblaðið.

Á sýningunni bregður Hlynur upp "nýjum löndum" á myndverkum. "Þetta eru ný lönd - ný landamæri. Í verki sem ég gerði fyrir nokkrum árum dró ég upp pólitísk landamæri, bara landamærin, og þar sem lönd lágu að sjó eða vötnum var bara eyða." Hann kveðst hafa velt því fyrir sér hvort þetta væru hin raunverulegu landamæri; "talað er um menningarlandamæri, tungumálalandamæri. Alls kyns landamæri eru til í hugum fólks. Á þessum tíma voru landamæri að brotna upp, færast til, ný að myndast og önnur að þurrkast út - Júgóslavíu var búið að skipta upp og Sovétríkjunum. Þýskaland var hins vegar að sameinast."

Evrópa án landamæra?

Svo bætir hann við: "Nú er mikið talað um að Evrópa sé að verða án landamæra. Þetta er flott slagorð, en spurningin er hvort ekki sé verið að byggja upp ytri landamæri og þau verði enn sterkari en þau gömlu!"

Hlynur leitaði fanga á Netinu og víðar í því skyni að finna margs konar hópa sem berjast fyrir sjálfstæði ákveðinna svæða, hvar "ný lönd" gætu myndast. "Hér í Quebec," segir hann og bendir á kort af Kanada, "var kosið um það fyrir nokkrum árum hvort fylkið ætti að verða sjálfstætt ríki og munurinn var lítill. Úrslitin urðu 51% gegn 49%. Það var sem sagt ákveðið að Quebec yrði áfram hluti af Kanada. Síðan er ég þarna með Baskaland sem allir þekkja og yrði til með því að taka bæði hluta af Spáni og Frakklandi. Þarna er líka Katalónía sem er miklu minna í fréttum en Baskaland en þar er þó í raun og veru miklu meiri og kröftugri barátta fyrir sjálfstæði, og Katalónar eru nú þegar með sjálfsstjórn og eigið þing. Það er kannski vegna baráttuaðferðar Baskanna sem þeir eru svona mikið í fréttum, vegna hryðjuverka. En Katalóníumenn eru ekki síður þjóðernissinnaðir."

Sýning Hlyns í Texas í Bandaríkjunum vakti mikla athygli fyrir nokkrum misserum. Hneykslaði marga. Þessi vekur ekki jafn sterk viðbrögð, eða hvað?

Hann svarar neitandi. "Og þó. Ég er ekki viss um að Tyrkir yrðu sérstaklega ánægðir ef þeir sæju hve stórt svæði ég tek af Asíuhluta Tyrklands fyrir Kúrdaland. Eða Norðmenn, vegna þess að ég tek nánast helming Noregs undir Samaland, sem nær svo yfir stóran hluta Svíþjóðar, Finnlands og yfir allan Kólaskaga í Rússlandi."

Vestfirðir orðnir að "nýju landi"

Svo eru Vestfirðir orðnir að "nýju landi" á sýningu Hlyns. "Mér þótti við hæfi að taka eitthvað íslenskt. Það var of einfalt að taka Vestmannaeyjar, og oft hefur verið talað um, til dæmis í tengslum við kvótamálin, að Vestfirðingar væru betur settir sjálfstæðir. Ég veit ekki betur en síðast í síðustu viku hafi bæjarfulltrúi framsóknarmanna í Vesturbyggð sagt að ekkert væri gert fyrir Vestfirði. Allur fókus væri á Eyjafjarðarsvæðið, þannig að þessi umræða kemur upp aftur og aftur."

Hlynur tekur enga afstöðu með verkum sínum. Hvort eitthvert ákveðið landsvæði ætti að verða sjálfstætt eða annað. "Ég er bara að velta því fyrir sér hvar mörkin liggja og til hvers er verið að þessu. Kannski varpa verkin líka ljósi á ólíka heima og ólíkar baráttuaðferðir."

Sýningu Hlyns Hallsonar í Gallery 02 á Akureyri lýkur á morgun, laugardag.