Reykjanesbær | Tíundu bekkingar í Njarðvíkurskóla stóðu fyrir maraþonlestri í skólanum um síðustu helgi en átakið var liður í að safna fyrir vorferð nemenda til Vestmannaeyja sem farin verður strax að loknum samræmdum prófum í maí.

Reykjanesbær | Tíundu bekkingar í Njarðvíkurskóla stóðu fyrir maraþonlestri í skólanum um síðustu helgi en átakið var liður í að safna fyrir vorferð nemenda til Vestmannaeyja sem farin verður strax að loknum samræmdum prófum í maí. Notuðu nemendurnir tækifærið og lásu undir prófin sem hefjast með samræmdu prófi í íslensku 3. maí nk.

Að sögn Sveins Enoks Jóhannssonar, formanns nemendafélagsins,

lásu nemendur í skólabókunum frá kl. 20 á föstudagskvöldi til kl. 8 á laugardagsmorgun, klukkutíma í senn með klukkustundarhléi á milli. Í leiðinni söfnuðu þau áheitum en ekki lá endanlega fyrir hve miklu tókst að safna þegar blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Svein.

"Þetta var rosalega gaman og ógleymanlegt," sagði hann um uppátækið.

Nemendur pöntuðu sér kínamat og pitsur sem þau gæddu sér á í hléi, sumir horfðu á myndbönd og nokkrir mættu með kassagítar.

Að sögn Sveins hefur vorferð venjulega verið farin til Akureyrar en ákveðið var að bregða út af vananum og í staðinn verður dvalið þrjár nætur í Eyjum, farið í siglingu umhverfis eyjarnar og stærðar tjaldi slegið upp í Herjólfsdal svo eitthvað sé nefnt.