Myndarleg braggabyggð hefur risið á Snæfellsnesinu vegna gerðar kvikmyndarinnar Guy X.
Myndarleg braggabyggð hefur risið á Snæfellsnesinu vegna gerðar kvikmyndarinnar Guy X. — Morgunblaðið/Hrefna Magnúsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðustu daga hefur mikið verið um að vera í Björgunarstöðinni á Gufuskálum á Snæfellsnesi.

Síðustu daga hefur mikið verið um að vera í Björgunarstöðinni á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Þar er búið að koma upp kvikmyndaveri og nú er allt á fullu við það að taka upp kvikmynd sem ber nafnið Guy X sem byggð er á skáldsögunni, No One Thinks of Greenland, eftir John Griesemer. Stóru nöfnin í leikarahópnum fyrir okkur Íslendinga eru Hilmir Snær Guðnason og Jason Biggs, en Biggs þessi fór með stórt hlutverk í American Pie-myndunum vinsælu. Hilmir Snær mun vera eini íslenski leikarinn í myndinni.

Auk atvinnuleikaranna kemur fjöldi manns fram í myndinni. Suma dagana eru þar allt að hundrað. Auglýst var hér eftir fólki á aldrinum 15 til 35 ára sem vildi spreyta sig á kvikmyndaleik. Nokkrir hér á Hellissandi gripu tækifærið að komast á tjaldið og munu flestir vera í hlutverki hermanna. Einnig hefur komið fólk úr Reykjavík, Akranesi og víðar að til að taka þátt í ævintýrinu.

Það eru íslenskir, kanadískir og breskir kvikmyndaframleiðendur sem standa að töku og framleiðslu þessarar myndar. Íslenski framleiðandinn er Anna María Karlsdóttir fyrir Ex ehf.

Slík gestakoma sem þessi setur nokkuð svip á staðinn hér á Hellissandi. Hótel Hellissandur er fullsetið af leikurum og starfsfólki sem tengist kvikmyndatökunni og þessir gestir koma líka við í verslunum á staðnum.

Gert er ráð fyrir að tökum hér verði lokið 9. maí og þá verði haldið til Kanada og þar verði hafist handa við tökur 13. maí.

Hellissandi. Morgunblaðið.