Fjölmenni var á umræðufundinum um skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum í Sunnusal Hótels Sögu.
Fjölmenni var á umræðufundinum um skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum í Sunnusal Hótels Sögu. — Morgunblaðið/Sverrir
FJÖLMIÐLAR eru mikilvæg forsenda þess að almenningur hafi tjáningarfrelsi. Fjölbreytni í eignarhaldi og fjölbreytni í efnisvali fjölmiðla þarf að tryggja.

FJÖLMIÐLAR eru mikilvæg forsenda þess að almenningur hafi tjáningarfrelsi. Fjölbreytni í eignarhaldi og fjölbreytni í efnisvali fjölmiðla þarf að tryggja. Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi sem Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor og formaður nefndar um eignarhald á fjölmiðlum, á fundi Lögfræðingafélags Íslands í gær.

Davíð Þór sagði að til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum þyrfti að uppfylla tvær meginkröfur. Annars vegar væri krafan um fjölbreytt eignarhald og hins vegar krafan um fjölbreytni í efnisvali fjölmiðla. "Það er nauðsynlegt að uppfylla báðar kröfur," sagði Davíð Þór.

Hann sagði síðari kröfuna fyrst og fremst eiga við um það sem talist geti mikilvæg þjóðfélagsmálefni. "Næsta skref er að skoða íslenskar aðstæður og spyrja hvort þessum kröfum sé fullnægt á Íslandi."

Óheppileg staða á fjölmiðlamarkaði

"Mest sláandi fyrir þessa heildarmynd á Íslandi er staða Norðurljósa," sagði Davíð Þór um íslenskan fjölmiðlamarkað. Hann sagði sér þykja miður að þurfa að nafngreina einstök fyrirtæki, en að hann teldi það umhugsunarefni í sjálfu sé að ekki væri hægt að "tala um íslenskan fjölmiðlamarkað að neinu viti án þess að minnast á Norðurljós". Hin miklu umsvif Norðurljósasamsteypunnar veki upp spurningar um það hvort önnur krafan um fjölbreytni, sú um fjölbreytni í eignarhaldi, sé uppfyllt. "Ef við beitum þessum mælikvarða þá er þessi staða óheppileg."

Gunnar Jónsson lögmaður beindi þeirri spurningu til Davíðs Þórs hvort hann hefði ekki saknað þess að fá umræðu um skýrsluna áður en unnið var lagafrumvarp upp úr henni. Þá spurði hann hvort markmiðið um fjölbreytni í eignarhaldi sem Davíð nefndi gæti ekki útilokað að hægt væri að uppfylla það markmið að fjölmiðlar byðu upp á fjölbreytt efni.

Ef fjölmiðlum fækkaði í kjölfar lagasetningar um eignarhald væri þá ekki fórnarkostnaðurinn orðinn of hár.

Davíð Þór kvaðst ekki telja að önnur krafan útilokaði hina. "Fjölbreytni í eignarhaldi er forsenda hinnar kröfunnar til lengri tíma," sagði Davíð Þór. Inntur eftir því af Stefáni Þórarinssyni, sem spurði úr sal, hvers vegna ekki hefði verið meiri umræða um EES-reglur um fjölmiðla í skýrslunni sagði Davíð Þór að það hefði krafist meiri vinnu af hálfu nefndarinnar. Henni hefði verið naumt skammtaður tími.

"Í meginatriðum eiga þessar hugmyndir okkar sér samsvörum í þessum tilmælum Evrópusambandsins," sagði Davíð Þór í erindi sínu. Hann sagði að í skýrslunni væri notast við þar sem hann kallar "viðurkennda orðræðu" og viðmiðanir séu meðal annars sóttar til annarra landa.

"Við erum með stöðu sem í öðrum löndum hefur verið talin kalla á sérstakar aðgerðir löggjafans."

Davíð Þór kvaðst ekki ætla að taka afsöðu með eða gegn frumvarpinu sem ríkisstjórnin hafi lagt fram. Nefndin hafi einungis gert tillögur til úrbóta á þeirri "óheppilegu stöðu" sem hún telji vera á fjölmiðlamarkaði á Íslandi. Hann benti á að skýrsla nefndarinnar fæli ekki í sér endanlegan dóm, einungis tilmæli. Hvort taka ætti á stöðunni væri pólitísk ákvörðun.