EF BANNA á fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að eiga fjölmiðla er rétt eins hægt að banna hvaða hópi sem er, t.d. örvhentum, að eiga fjölmiðla. Þetta sagði Sigurður G. Guðjónsson, forstjóri Norðurljósa, á fundi Lögfræðingafélags Íslands.

EF BANNA á fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að eiga fjölmiðla er rétt eins hægt að banna hvaða hópi sem er, t.d. örvhentum, að eiga fjölmiðla. Þetta sagði Sigurður G. Guðjónsson, forstjóri Norðurljósa, á fundi Lögfræðingafélags Íslands.

"Ég á ekki von á því að Davíð Þór [Björgvinsson] geti sannfært nokkurn mann hérna innan dyra um að það fari ekki í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar að banna markaðsráðandi fyrirtækjum að eiga í ljósvakamiðlum. Við getum alveg eins sagt að lögmenn megi ekki eiga í ljósvakamiðli, ekki örvhentir menn. Það er enginn munur."

Um lögin sem frumvarpið leggur til sagði Sigurður: "Þetta eru ekki nein almenn lög. Þetta eru lög sem eiga að brjóta þetta fyrirtæki upp. Þetta eru lög sem beinast gegn einum aðila og það er almennt viðurkennt að slík lög sé ekki hægt að setja í réttarríki."

Sigurður lýsti þeim vanda sem að félaginu steðjar verði fjölmiðlafrumvarpið að lögum. Hann sagði skýrslu nefndar um eignarhald á fjölmiðlum góða á margan hátt, hins vegar vantaði ákveðna hluta í hana.

Fjölbreytni dagskrár gleymist í skýrslunni

Hann gagnrýndi að það ekki skuli minnst á fjölbreytni í efnisvali hinna frjálsu fjölmiðla. "Það er hvergi í skýrslunni stafkrókur um dagskrána, þ.e.a.s. hvort hún er fjölbreytt að efni til eða það hve miklu púðri, tíma eða pappír, þessir miðlar eyða í það að halda uppi þjóðfélagsumræðu. Ég held að við á Stöð 2 a.m.k. höldum uppi afskaplega mikilli þjóðfélagslegri umræðu í opinni dagskrá hvern einasta dag," sagði Sigurður og minntist á umræðuþættina Ísland í bítið og Ísland í dag sem sendir eru út í ólæstri dagskrá. "Það er ekkert fjallað um það hvort þetta takmarkaða eignarhald leiði til þess að dagskráin sé einsleit og sé bara tómur áróður."

Sigurður benti á að Bylgjan missir útvarpsleyfi sitt eftir 6 mánuði, "nema það verði brunaútsala á öðrum eignum Norðurljósa". Sigurður benti á að Norðurljós eru í slæmri samningsstöðu og sagði verðgildi fyrirtækisins nú þegar hafa rýrnað. "Eftir 2 ár þá höfum við engin leyfi nema það sé búið að splitta þessu fyrirtæki upp." Þetta telur Sigurður brjóta í bága við stjórnarskrána, nema hægt sé að sýna fram á að almannahagsmunir séu í húfi.

"Ég er ekki í sjálfu sér á móti lögum um útvarp eða fjölmiðla," sagði Sigurður og benti á að núverandi löggjöf um fjölmiðla sé afskaplega frjálslynd. Hann kvaðst furða sig á því að ef með lögunum eigi að auka valdheimildir útvarpsréttarnefndar, ef hún eigi að meta hverjir megi eiga fjölmiðla, að ekki sé kveðið á um hæfi nefndarinnar.