Þrúður Guðmundsdóttir (Dúa) fæddist í Reykjavík 23. nóvember 1924. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 16. apríl síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Fossvogskirkju 27. apríl.

Nú þegar amma mín er farin eftir erfið veikindi, fer ég að rifja upp allar þær góðu stundir sem við höfum átt saman. Það má segja að Hjalli hafi verið mitt annað heimili því á mínum yngri árum var ég alltaf hjá afa og ömmu á sumrin. Ég fór snemma á vorin í sveitina til ömmu og afa til að hjálpa til við búskapinn. Á Hjalla var stórbúskapur og nóg að gera, og þegar komið var inn í mat eða kaffi var amma tilbúin með veislu handa okkur enda afbragðs kokkur. Hennar helsta áhugamál var garðurinn og þegar tími og veður gafst til var amma alltaf að vinna í garðinum enda var hann bæði stór og flottur. Það var alltaf gott að vera hjá henni og tala við hana. Ég gat talað við hana um hvað sem var, hvort sem um var að ræða íþróttir, bíla eða þjóðmálin. Hún hafði alltaf skoðanir á hlutunum og lá aldrei á þeim. Kvöldin voru hennar bestu stundir. Þá sat hún í róglegheitunum í stólnum sínum í stofunni, prjónaði og hlustaði á útvarpið.

Að lokum vil ég þakka fyrir allt sem hún hefur kennt mér og þær góðu minningar sem ég á um hana. Guð geymi hana.

Finnbogi

Þorsteinsson.

Elsku amma mín, nú ertu farin yfir á annað tilverustig, laus úr viðjum hræðilegs sjúkdóms sem engu eirir.

Mig langar að senda þér lítið ljóð:

Stjarna skín á himni hátt

er lýsa fær minn innri mátt.

Sú stjarna skín er myrkva fer,

stjarna er skín í hjarta mér.

Þú veist að þessi stjarna ert þú

úr lífi mínu hverfur nú.

Sú stjarna um himin háan fer

þó er hún ávallt hér hjá mér

Hvað segja skal um stjörnu þá

er orðin eintóm segja fá?

Sú stjarna úr lífi þessu dó

nú hvíla fær í friði og ró.

Amma nú til himna fer

þó mun hún ávallt fylgja mér.

(H. D. H.)

Takk fyrir að vera amma mín. Takk fyrir að hlusta á mig og tala alltaf við mig eins og ég væri fullorðin. Takk fyrir að hughreysta, fræða, styrkja og styðja.

Takk. Takk. Takk.

Elsku afi, þinn er missirinn mestur, ég bið almættið að styðja við bakið á þér um ókomin ár.

Hulda

Þorsteinsdóttir.

Árið 1924 fæddust þeim hjónum Sesselju Friðriksdóttur og Guðmundi Runólfssyni tvær dætur. Gleðin var tregablandin. Önnur sýndi eðlileg viðbrögð ungbarns. Hin virtist andvana fædd. Ömmusystir mín, Guðrún Friðriksdóttir, vildi ekki gefa upp vonina. Hún reyndi að koma lífi í lítinn líkama. Það tókst. Treginn vék fyrir óskiptri ánægju. Fæddar myndarlegar tvíburasystur sem voru glæsileg viðbót við fjölskylduna. Ömmubróðir minn, séra Friðrik A. Friðriksson, stakk upp á nöfnunum Auður og Þrúður sem ekki voru algeng á þeim tíma. Það varð niðurstaðan. Augnablik skildi á milli lífs og dauða. Stundum er sagt að fall sé fararheill. Það hefur sannast í þessu tilviki. Með því er ekki sagt að lífið hafi verið fyrir Þrúði Guðmundsdóttur einhver dans á rósum. Ósérhlífni og farsæld hafa markað brautina.

Ég á mínar fyrstu minningar um Þrúði og Finnboga frá árinu 1955, þá barnungur að árum. Rigningin þetta sumar er greypt í huga minn. Þetta var kallað rigningasumarið 1955. Mitt í fólksflóttanum á mölina tóku ung hjón sig upp með tvö börn og fóru á móti straumnum. Fluttust frá Kópavogi að hinu sögufræga stórbýli Hjalla í Ölfusi. Það hefur alltaf þurft bæði kjark og áræði til að fara á móti straumnum. Þetta gilti ekki síst á þessum tíma, mitt í kreppu og atvinnuleysi. Þau hafa haft yfirdrifið af hvoru tveggja hjónin Þrúður og Finnbogi. Ætíð ný verkefni á hverju ári. Gömlu fjárhúsin hurfu og ný risu. Fjósið og hlaðan viku fyrir nýjum, stærri. Börnunum fjölgaði úr tveimur í fimm. Gamli Hjalli stækkaður um helming. Ráðist í nýjar búgreinar. Alltaf sami myndarbragurinn á öllum verkum. Hjónin samtaka og samrýnd og höfðingjar heim að sækja. Alúð, rausnarskapur, hreinskiptni og hjartahlýja. Þær eru orðnar margar helgarnar sem leiðin hefur legið að Hjalla til Þrúðar og Finnboga. Móttökurnar undantekningarlaust frábærar og lifa áfram í minningunni þótt Þrúðar njóti ekki lengur við. Það er stórt tómarúmið þegar kær móðursystir fellur frá. Okkar innilegustu samúðarkveðjur til Finnboga, barna og barnabarna.

Gylfi Kristinsson

og Jónína Vala

Kristinsdóttir.