Hulda Júlíana Sigurðardóttir fæddist í Hafnarfirði 30. júlí 1929. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði mánudaginn 19. apríl síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Hafnarfjarðarkirkju 23. apríl.

Elsku amma mín. Þú varst alltaf hress og kát. Einnig varstu góð við alla og með mikinn lífskraft. Vildir alltaf hjálpa til og vildir alltaf hafa nóg að gera. Ég minnist enn ferðarinnar okkar saman til Englands, þegar við fórum að heimsækja Erlu frænku og mömmu. Þú vildir allt fyrir mig gera, alltaf. Það var alltaf gaman að fara með þér upp í búðina ykkar afa, Músík og Sport, þegar þú varst að fara að vinna. Þú leyfðir mér alltaf að prófa ný föt, láta tónlist á og alltaf söngstu með af mikilli innlifun og kátínu. Þú varst alltaf syngjandi og söngur þinn var alltaf jafn fallegur. Alltaf fylgdist ég með þegar þú lagðir kapal og kenndir þú mér nokkra, þú hafðir mjög gaman af öllu og þú varst alltaf brosandi. Ég mun ávallt minnast þín sem lífsglaðrar og elskulegrar ömmu. Og þú munt ávallt lifa og vera elskuð, eins og þú hefur alltaf verið, í hjarta mínu. Með þökk fyrir að hafa haft þig í lífi mínu.

Þín dótturdóttir

Kristjana (Jana).

Einn morguninn vakna ég við hljómfagra rödd óma í fjarska. Ég stíg þreytulega á fætur og lít fram í stofu þar sem glæsileg kona syngur af mestu innlifun. Hún sveiflar líkama sínum sterklega og hressilega í allar áttir og er með danstaktana á hreinu. Þetta er hún amma mín, Hulda Júlíana Sigurðardóttir. Hún tekur í höndina á mér og við stígum léttan dans. Það er ekki oft sem maður vaknar við svona hressleika. Á þessum tíma var alzheimer-sjúkdómurinn farinn að hrjá þig. En þú stóðst sterk eins og klettur í brimmiklu hafi - varst og hefur alltaf verið full af orku og aldrei unað þér vel nema að hafa eitthvað fyrir stafni. Þótt minnið væri farið að gefa sig síðari árin skein gleði og hressleiki í kringum þig sem lýsir því hversu sterkan persónuleika þú hafðir.

Margs er að minnast eins og hvað þér fannst gott að láta mig nudda fæturna á þér þann tíma sem ég var mikið hjá þér og afa vegna veikinda móður minnar. Þið hugsuðuð svo vel um mig þá, þú hjálpaðir mér mikið með lærdóminn og þið frædduð mig um heima og geima. Þú sýndir ávallt mikið umburðarlyndi og umhyggju í garð barnabarnanna og varst stolt af okkur. Þið hjónin voruð svo ástfangin hvort af öðru sem skapaði mikla hlýju á heimili ykkar á Klettahrauninu. Það var alltaf mjög gott að koma þangað. Ekki gleymi ég heldur hvað það var gaman að koma í búðina ykkar, Músik og sport, enda var hún aðalíþróttabúðin í bænum. En síðan þurftir þú að hætta að vinna vegna veikinda. Þú áttir erfitt með að sætta þig við það sem var engin furða; þú hafðir alltaf lagt mikinn metnað í að afgreiða viðskiptavinina og var það stór hluti af þínu lífi.

Elsku amma, ég á ótal margar góðar minningar um þig sem ég mun varðveita á góðum stað í hjarta mínu. Þú munt lifa í huga mínum áfram.

Huldar Freyr.