Lilja Bernódusdóttir, Neðstaleiti 7 í Reykjavík, fæddist í Bolungarvík 11. júní 1941. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi aðfaranótt 24. apríl síðastliðins. Foreldrar hennar eru Bernódus Halldórsson frá Bolungarvík, f. 26. júlí 1910, og Dómhildur Klemensdóttir frá Hvassafelli í Borgarfirði, f. 4. desember 1912, d. 5. feb. 1994. Systkini Lilju eru: Kristín Erla, f. 5. okt. 1933, Halldór, f. 28. sept. 1939, Sigurður Viggó, f. 17. sept. 1944, d. 20. sept. 1993, Guðmundur Kristinn, f. 9. júlí 1948, og Svanur, f. 4. mars 1952, d. 17. jan. 1956.

Sonur Lilju er Svanur Wilcox, f. 12. nóv. 1969. Sambýliskona hans er Katrín Anna Eyvindardóttir, f. 4. maí 1972. Þeirra börn eru Daníel Þór, f. 16. sept. 1997, og Þórdís Lilja, f. 11. júlí 2001. Barnsfaðir Lilju er Þór Wilcox.

Lilja ólst upp í Bolungarvík og bjó þar til ársins 1960. Veturinn 1960-1961 dvaldi hún í Danmörku og Noregi. Árið 1962 hóf hún störf hjá Landssímanum þar sem hún starfaði til ársins 1974 er hún tók við stöðu stöðvarstjóra Pósts og síma á Suðureyri við Súgandafjörð. Þeirri stöðu gegndi hún þar til hún fluttist aftur til Reykjavíkur árið 1985 og tók við útibússtjórastöðu Pósts og síma í Lóuhólum. Árið 1999 flytur Lilja sig um set og tekur við stöðu útibússtjóra Íslandspósts á Hofsvallagötu þar sem hún starfaði þar til útibúinu var lokað sumarið 2002.

Útför Lilju verður gerð frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Lífshlaupi Lilju, yndislegrar konu, er lokið. Betri tengdamóður og ömmu er ekki hægt að hugsa sér. Ég minnist þeirra stunda er ég hitti Lilju fyrst fyrir tæpum 11 árum, hlýtt viðmót, fallegt bros og með sinni einstöku hjartagæsku bauð hún mig velkomna inn í fjölskylduna strax frá fyrstu stundu. Hún hafði í 24 ár tileinkað líf sitt einkasyninum og höfðu þau tvö búið saman, fyrstu árin í Reykjavík. Fyrir einstæða móður var lífið eflaust ekki auðvelt, eldsnemma á morgnana fór hún með strákinn sinn í strætó á leikskóla niðri í bæ og seint á daginn fóru þreytt mæðgin aftur heim með strætisvagninum. Í hennar huga var þetta þó ekki erfitt, svona var bara lífið og það hvarflaði aldrei að henni að barma sér, hvorki yfir þessu né neinum öðrum erfiðleikum er mættu henni í lífinu. Þegar nálgast fór skólaaldur Svans fór hún að huga að framtíð drengsins og sá fyrir sér lítið lyklabarn alast upp í Breiðholtinu. Það var nokkuð sem Lilja gat alls ekki hugsað sér að sonur hennar þyrfti að verða og sótti hún því um starf stöðvarstjóra Pósts og síma á Suðureyri við Súgandafjörð. Starfið fékk hún og af dugnaði og eljusemi reif hún sig upp og flutti með einkasoninn vestur á firði um miðjan vetur 1974. Þar bjuggu þau á efri hæð pósthússins með tilheyrandi frelsi fyrir litla stráka til ýmissa athafna en mamma þó alltaf nærri. Það skipti heldur ekki svo litlu máli að Haddi, bróðir Lilju, bjó á þessum tíma með fjölskyldu sína á Suðureyri og var nálægðin við fjölskylduna þeim mæðginum ómetanleg.

Árið 1985 flytja þau Lilja og Svanur aftur til Reykjavíkur og nú tók Lilja við starfi útibússtjóra Pósts og síma í Lóuhólum. Þar kunni hún sannarlega vel við sig og eignaðist fjölda kunningja og vina í gegnum starfið og má þar nefna "perluvinkonurnar" sem hittust reglulega og föndruðu saman. Haustið 1993 kem ég inn í líf litlu fjölskyldunnar, og fékk svo sannarlega minn stað í stóra hjartanu hennar Lilju. Umhyggja og velferð annarra voru sem rauður þráður í gegnum líf hennar eins og sjá mátti hvarvetna. Árið 1997 kom svo að því að frumburður okkar Svans, Daníel Þór, fæddist. Ástin og umhyggjan sem þessi litli drengur fékk frá ömmu sinni var óendanleg, hún var vakin og sofin yfir velferð hans og stoltið leyndi sér ekki. "Vinurinn minn" kallaði hún Daníel sinn ávallt og áttu þau ófáar stundirnar saman, tvö að bralla eitthvað sem mamma og pabbi þurftu ekkert að vita um. Ekki varð gleðin svo minni þegar Þórdís Lilja fæddist sumarið 2001, mánuði eftir að Lilja hélt upp á sextugsafmælið sitt. Litla ömmudúllan fékk sko sinn skerf af stóra faðminum hennar ömmu Lilju og var snúist í kringum litlu dömuna eins og prinsessum sæmir. Saman áttu þau þrjú; amma Lilja, Daníel Þór og Þórdís Lilja ómetanlegar stundir í leikhús- og bíóferðum, Kringlunni, heimsóknum til vinkvenna Lilju og ekki hvað síst í garðinum við Neðstaleitið. Engin orð fá lýst því sem Lilja hefur verið mér og börnunum mínum. Það eru sannarlega forréttindi að hafa fengið að kynnast þessari ljúfu, blíðu og hjartastóru konu.

Almáttugur Guð varðveiti þig, mín ástkæra Lilja. Hafðu þökk fyrir allt.

Þín elskandi tengdadóttir,

Katrín Anna

Eyvindardóttir.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús, þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

Hafðu gát á hjarta mínu,

halt mér fast í spori þínu,

að ég fari aldrei frá þér,

alltaf Jesús, vertu hjá mér.

(Ásmundur Eir.)

Kveðja.

Ömmubörnin

Daníel Þór og

Þórdís Lilja.

Kæra frænka, það er erfitt að sætta sig við að þurfa að kveðja þig aðeins 62ja ára að aldri. Þú hefur verið okkur stoð og stytta í gegnum tíðina og eins hefðir þú viljað vera lengur til staðar fyrir Svan, Katrínu og barnabörnin.

Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og því miður fór það svo að Lilja missti heilsuna fyrir nokkrum árum vegna nýrnabilunar og eitt rak annað í heilsuleysi hennar, svo fór fyrir tveimur vikum að hún fékk heilablóðfall og ekki varð aftur snúið.

Það var snemma árs 1974 sem Lilja og Svanur fluttu vestur í Súgandafjörð, þar sem við fjölskyldan bjuggum og Lilja tók við starfi stöðvarstjóra Pósts og síma. Alla tíð síðan hefur samgangurinn verið mikill bæði meðan þau bjuggu fyrir vestan og líka eftir að við fórum að búa á höfuðborgarsvæðinu og stofnuðum okkar fjölskyldur. Það var alltaf gott að koma til hennar í heimsókn bæði í Krummahólum og Neðstaleitið. Við héldum mörg jólin saman bæði hér í Reykjavík og fyrir vestan og í gegnum tíðina hefur Lilja verið ómissandi í fjölskylduboðum.

Lilju var mjög félagslynd og sérstaklega lagið að umgangast fólk, hvort sem var í kirkjukórnum á Suðureyri, samstarfsfólk, vinir eða fjölskylda. Hvar sem hún kom var hún vel liðin og börnin okkar höfðu einstakt dálæti á henni og nutu athygli hennar.

Við systkinin kveðjum Lilju föðursystur okkar með söknuði og þökkum umhyggju og ástríki hennar við okkur alla tíð. Blessuð sé minning hennar.

Hafdís, Svanhildur, Gissur Óli og Elín Kristrún.

Að leiðarlokum langar okkur til að kveðja Lilju og þakka henni fyrir að vera svo lánsöm að hafa átt hana að vini

Við Lilja vorum búnar að vera vinkonur í næstum sex áratugi og margar minningar koma upp í hugann. Minningar úr Bolungarvíkinni okkar koma fyrst upp í hugann þar sem við ólumst upp saman. Boltaleikir á sandinum með jafnöldrum okkar, endalausar sendiferðir fyrir foreldra okkar og barnapössun. Seinna voru það skátarnir og ferðalög og fjallgöngur, upp á flest fjöllin umhverfis víkina.

Lilja var mjög skemmtileg, hláturmild og hress og einstaklega góður og traustur vinur. Aldrei heyrði ég hana hallmæla nokkrum manni. Þegar ég átti við veikindi að stríða var það Lilja sem flutti inn á heimilið og hjálpaði mér.

Lilja eignaðist einn dreng, Svan, einstaklega góðan og yndislegan dreng sem var augasteinn móður sinnar. Svanur stofnaði heimili með unnustu sinni Katrínu og eiga þau tvö börn saman, Daníel Þór, og Þórdísi Lilju, sem voru ömmu sinni allt. Lilja veiktist fyrir rúmlega þremur árum af erfiðum sjúkdómi og tók hún því af æðruleysi sem einkenndi hennar persónuleika.

Að leiðarlokum þökkum við Steini tryggð Lilju og vináttu. Börnin okkar þakka henni líka fyrir allar samverustundirnar, og og elskulegheitin sem hún sýndi þeim fyrr og síðar.

Svan, Katrínu, Daníel Þór, Þórdísi Lilju, Bernódusi föður hennar systkinum hennar og öðrum aðstandendum vottum við okkar dýpstu samúð.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng ,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóstið þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt

og Svanur á bláan voginn.

(Davíð Stef.)

Hjartans þakkir fyrir allt.

Halldóra og Þorsteinn.

Í dag kveðjum við kæra vinkonu og samstarfsmann. Við störfuðum með henni í Lóuhólunum og þar var oft glatt á hjalla enda var Lilja glaðsinna og hafði gaman af að hlæja. Margt var brallað og stofnuðum við okkar skemmtilega perluklúbb. Þar voru mörg meistarastykkin unnin. Í kaffi og matartímum var tíminn nýttur vel og uppskriftir voru ræddar fram og aftur. Þessar samverustundir gáfu okkur mikið. Lilja tók þátt í gleði okkar og sorgum og var gott að leita til hennar ef eitthvað bjátaði á. Hún var góður yfirmaður. Hið létta fótatak hennar hljómaði um pósthúsið í annríki dagsins. Það var hlaupið upp og niður stigann og brostum við oft þegar hún kom hlaupandi til okkar. Í jólaösinni sinnti hún öllum störfum eins og alltaf, leysti af í matar- og kaffitímum, og var að sjálfsögðu síðust út að kveldi dags. Lilja var búin að vera lasin undanfarin ár en tók því með æðruleysi eins og henni einni var lagið. Við sjáum hana í anda sitja á rósrauða skýinu sínu, kannske að perla, hver veit, þar sem hún fylgist með öllu sínu fólki.

Fjölskyldunni allri vottum við okkar innilegustu samúð.

Þrúður, Steinunn,

Þóra og Hrönn.

Okkur bræðurna langar með örfáum orðum að minnast Lilju frænku sem í okkar huga skipar sérstakan sess. Alltaf var jafngaman að hitta og spjalla við Lilju og hjá henni var jafnan stutt í brosið og smitandi hlátri hennar var einstaklega auðvelt að hrífast með. Hún hefur verið fastur hluti í tilveru okkar allt frá því við munum fyrst eftir okkur á bernskuárunum í Bolungarvík og allar götur síðan og það er erfitt að hugsa sér að nú sé hún ekki lengur á meðal okkar. Við viljum þakka Lilju fyrir allar góðu minningarnar.

Kæri Svanur, þér og fjölskyldu þinni sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð um að veita ykkur styrk og stuðning.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Hannibal Halldór

og Elvar.

Heita eining huga og máls,

hjarta gulls og vilji stáls,

ljósið trúar, ljósið vona

lífs þíns minning yfir brenni.

Þú, sem unnir ei til hálfs

auðnu landsins dætra og sona,

blómsveig kærleiks bjart um enni

berðu hátt. Nú ertu frjáls.

Dyggð og tryggð þitt dæmi kenni.

Dána! Þú varst íslenzk kona.

(Einar Ben.)

Með þessum ljóðlínum kveð ég þig, kæra æskuvinkona, og þakka fyrir allar okkar góðu stundir saman. Þær eru margar minningarnar sem upp í hugann koma við fráfall þitt og allar eru þær góðar þótt ekki verði tíundaðar hér. Veikindum þínum tókstu með æðruleysi og sýndir fádæma styrk þótt yrðir að játa þig sigraða að lokum. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Svani, Katrínu og börnum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur, svo og öðrum ástvinum.

Guðs blessun fylgi þér.

Ásgerður Þórðardóttir.