Sigurður Elís Sigurjónsson sjómaður fæddist í Vestmannaeyjum hinn 3. september 1924. Hann lést á Dvalarheimilinu Nausti á Þórshöfn 20. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigurjón Sigurðsson, f. 9. 10. 1884, d. 6.9. 1940, og Þorgerður Sigurðardóttir, f. 30.10. 1882, d. 3.12. 1960. Systkini Sigurðar samfeðra voru: 1) Sigurlaug, f. 24.7. 1915, d. 25.1. 1990. 2) Sigurbjörn, f. 11.7. 1917, d. 26.4. 1992. 3) Ágúst Alexander, f. 27.6. 1920, d. 28.2. 1987.

Hinn 23. mars 1952 kvæntist Sigurður Steinunni Birnu Ingimarsdóttur, f. 9.10. 1916, d. 11.12. 1991. Foreldrar hennar voru Ingimar Baldvinsson, f. 20.11. 1891, og Oddný Friðrikka Árnadóttir, f. 16.7. 1893, d. 29.9. 1977. Birna og Sigurður skildu árið 1985.

Útför Sigurðar fer fram frá Þórshafnarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Hann Sigurður Elís Sigurjónsson, Siggi á Vegamótum, er látinn. Siggi fæddist í Vestmannaeyjum hinn 3. september 1924 og ólst þar upp sín fyrstu æviár. Eftir að hann fluttist til Þórshafnar með foreldrum sínum bjó hann nær alla sína tíð á Vegamótum. Síðustu árin dvaldist hann á Dvalarheimilinu Nausti á Þórshöfn eftir að heilsu hans tók að hraka. Þar naut hann góðrar umönnunar þess ágæta fólks sem þar starfar.

Frá Vegamótum, heimili Sigga og Birnu frænku minnar á ég ótal æskuminningar. Þau Birna og Siggi áttu ekki börn en þau voru einstaklega barngóð og til þeirra sóttu börnin úr fjölskyldunni. Segja má að ég hafi átt mitt annað heimili á Vegamótum hjá Birnu og Sigga þegar ég var að alast upp og verður að segja það eins og það var að þar var nú dekrað við mig á allan hátt. Hann Siggi var mörgum góðum kostum búinn. Aldrei þreyttist hann á að segja mér sögur, sögur frá Vestmannaeyjum, sögur af sjónum, sögur um lífið á Þórshöfn hér áður fyrr, sögur sem hann samdi sjálfur og bara alls konar sögur sem voru bæði í senn uppfræðandi og skemmtilegar. Hann var líka ágætlega hagmæltur og orti margar góðar vísur sem ég, því miður, veit ekki til að hafi mikið varðveist. Siggi virtist alltaf hafa tíma til setjast niður og leiðbeina, aðstoða og leika. Hann var svolítill heimspekingur í sér og kenndi mér heilmargt sem ég bý að enn í dag.

Þó að Vegamót standi ekki nema örskammt frá aðalbyggðinni á Þórshöfn þótti mér sem barni töluvert ferðalag í Vegamót. Ég þurfti þá ekki nema að láta hann vita að nú vildi ég koma í heimsókn og þá var hann kominn að sækja mig og síðan fylgdi hann mér heim aftur þegar mér þóknaðist. Áður en hann eignaðist Willys-jeppann sinn fórum við gangandi eða á hjólinu góða. Vakti það töluverða athygli í þorpinu þegar Siggi ferjaði mig og okkur systurnar jafnvel fleiri en eina í einu á milli á hjólinu sínu sem hann sérútbjó til þessara flutninga. Einhverju sinni varð honum að orði, og getur þá hafa haft í huga öll þau börn sem lögðu leið sína inn í Vegamót:

Víst er langt í Vegamót,

og vegur stundum þungur.

Þangað oft ég þreytti fót,

þegar ég var ungur.

Annað verður ekki sagt um Sigga á Vegamótum en að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir. Hann fór sínar eigin leiðir, var sterkgreindur maður og margfróður. Hann hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og lét þær óspart í ljós. Siggi er eftirminnileg persóna.

Elsku Siggi, hafðu hjartans þakkir fyrir allt og allt. Megi góður Guð geyma þig.

Þuríður Árnadóttir.