Ingibjörg Kristjánsdóttir fæddist á Víðivöllum í S-Þingeyjarsýslu 13. nóvember 1919. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 23. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigríður Sigtryggsdóttir, f. 9. janúar 1894, d. 28. febrúar 1985, og Kristján Rafnsson, f. 6. júní 1882, d. 19. maí 1938. Systkini Ingbjargar eru: Sigurður, f. 2.5. 1918, d. 22.1. 2000, Jóhanna Kristín, f. 3.11. 1921, d. 12.10. 1996, Rafn, f. 19.5. 1924, d. 4.12. 1972, Guðrún Sigurbjörg, f. 27.10. 1928, María, f. 25.10. 1931, og Elísabet, f. 20.11. 1934.

Ingibjörg ólst upp í Nýjabæ í Flatey á Skjálfanda. Þegar hún var 19 ára missti hún föður sinn. Hann drukknaði og varð það fjölskyldunni mikið áfall. Ingibjörg vann ýmis störf, m.a. hússtörf á Húsavík, aðhlyningarstörf á Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum og fiskvinnslustörf.

Ingibjörg giftist 24. desember 1952 Sveinbirni Guðmundssyni, f. 29. júní 1921, d. 5. júlí 1998, frá Öxl í Húnaþingi. Þau ættleiddu Guðmund Sveinbjörnsson, f. 21. desember 1953, d. 26. júlí 1991. Ingibjörg og Sveinbjörn áttu heimili lengst af í Vestmannaeyjum þar sem Sveinbjörn var vélstjóri og útgerðarmaður. Eftir gos í Heimaey 1973 settist fjölskyldan að í Kópavogi.

Útför Ingibjargar fer fram frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Okkur langar með nokkrum orðum að minnast Ingibjargar frænku okkar eða Ingu frænku eins og hún var kölluð. Hún var alltaf að hugsa um fólkið sitt og kunni skemmtilegar sögur af ættingjum sínum. Inga var skilningsrík, minning hennar er bundin við kærleika og þakklæti. Inga var einstök og hæfileikarík kona. Hún var hrókur alls fagnaðar og fannst gaman í góðra vina hópi. Sem börn vorum við oft hjá Ingu og Bjössa. Hún passaði okkur oft í veikindum mömmu, hrósaði okkur eða skammaði eftir því sem við átti. Þegar við vorum komin með okkar eigin fjölskyldur kom hún oft í heimsókn og hafði gaman af að ræða við börnin okkar enda mikil barnakerling. Þú hafðir gaman að ferðast um landið og margar voru ferðinar sem þið systurnar fóruð saman. Yndislegar minningar eigum við um þessa tignarlegu konu sem vildi allt fyrir sína stórfjölskyldu gera. Í heimsóknum okkar til hennar var alltaf spurt hvort ekki mætti bjóða okkur kaffi og meðlæti, þá bar hún fram dýrindis veislukost enda húsmóðir góð. Meira segja undir það síðasta þegar maður heimsótti hana á Hrafnistu og hún orðin helsjúk þá gaukaði hún samt að manni konfektmola eða brjóstsykri.

Kæra Inga frænka, við erum stolt af að hafa þekkt þig og það verður tómlegt án þín. Nú hefur þú fengið friðinn og vonum að þér líði sem best þar sem þú ert núna. Við munum aldrei gleyma þér svo lengi sem við lifum. Guð blessi minningu þína.

Kristján, Guðleif og Sigríður.