Ragnheiður Erla Hauksdóttir fæddist á Þinghóli í Glæsibæjarhreppi 3. október 1938. Hún lést á sjúkrahúsinu á Ísafirði 24. apríl síðastliðinn. Ragnheiður Erla var dóttir Olgu Sophusdóttur, f. 15. október 1919, d. 3. febrúar 1995, og Hauks A. Bogasonar, f. 21. nóvember 1919. Systkini Ragnheiðar Erlu samfeðra eru: Reynir, Gerður, Helga Fríða, Smári, Haukur og Ingi.

Hinn 20. október 1956 giftist Ragnheiður Erla Birni Sigurðssyni bifreiðastjóra í Reykjavík, f. 22. ágúst 1922, d. 11. september 1980. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Jóhanna Olga, f. 20. febrúar 1957, húsmóðir Hafnarfirði, í sambúð með Sigurði Trausta Sigurðssyni. Börn Jóhönnu eru: Olga Sigríður, Bryndís Erla en hún á tvo syni, Aron Elvar og Olíver Elí; Þórður Örn og Guðjón Þór. 2) Sigurður Kristján, f. 24. janúar 1958, rafveituvirki í Noregi, kvæntur Elínu Bjarnadóttur. Börn þeirra eru Erla Guðrún, Sigríður Ása, Bjarni og Birkir. 3) Örn, f. 1. desember 1959, smiður í Reykjavík. Synir hans eru Björn Arnar, Atli Freyr og Örn Elvar. 4) Kristjana, f. 8. desember 1962, kennari í Reykjavík, gift Óla G. Guðmundssyni. Dætur þeirra eru Ragnheiður Lilja, Hulda og Júlía. 5) Björn, f. 16. desember 1964, skipstjórnarkennari í Reykjavík, kvæntur Heiðdísi Hrafnkelsdóttur. Börn Björns eru Oddný Björk, Björn Viggó og Kristjana Erla. 6) Ingibjörg, f. 15. september 1971, húsmóðir í Hveragerði, gift Friðgeiri Bjarkasyni. Börn þeirra eru Bjarki og Tara Líf. Hinn 9. desember 1978 giftist Ragnheiður Erla Þórði Júlíussyni, f. 6. ágúst 1936, d. 26. október 1995.

Ragnheiður Erla ólst að mestu upp hjá móðurforeldrum sínum Kristjönu Jóhannsdóttur og Sophusi Gissurasyni á Akureyri. Árið 1955 flyst hún til Reykjavíkur og býr þar til ársins 1977 er hún flytur með Þórði og þremur yngstu börnunum til Flateyrar. Árið 1995 flytur hún aftur til Reykjavíkur þar sem hún bjó til ársins 2002 er hún flytur með Þorsteini Guðbjartssyni, sem var sambýlismaður hennar síðustu árin, aftur til Flateyrar. Börn Þorsteins eru Elín Kristín, Hermann og Helgi.

Ragnheiður sinnti ásamt uppeldis- og heimilisstörfum ýmsum störfum um ævina, m.a. vann hún lengi á Loftleiðahótelinu, bókabúðinni á Flateyri og öldrunarstofnun Flateyrar.

Útför Ragnheiðar Erlu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku mamma. Ég trúi því varla að þú sért farin frá okkur. Í huga mínum hrannast upp minningar um allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Þær verð ég nú að geyma í hjarta mínu. Þitt líf var ekki auðvelt en samt varst þú sterk kona og vildir öllum vel. Sérstaklega þegar veikindi voru hjá okkur, þá varst þú fljót að koma með þvottapokann á ennið á okkur, þetta nota ég alltaf þegar mín börn veikjast. Þú varst rík kona, sex börn, og fyrir það áttu heiður skilið. Ekki er það algengt nú til dags. Svo áttir þú 19 barnabörn og tvö langömmubörn. Þú ert hetjan okkar. Þú áttir fallegt heimili ásamt pabba á Flateyri en á einni nóttu misstir þú bæði pabba og heimilið. Fallið hafði snjóflóð. Í Reykjavík byrjaðir þú nýtt líf. Seinna stofnaðir þú heimili ásamt Steina og árið 2002 fluttir þú ásamt honum aftur til Flateyrar. Steini reyndist þín stoð og stytta, ég og Tara Líf komum til ykkar um síðustu verslunarmannahelgi að ná í Bjarka sem var búinn að vera hjá ykkur um sumarið, og áttum við þar saman yndislegar stundir. Á páskadag voruð þið Steini hjá okkur í mat, og það var í síðasta sinn sem ég hitti þig, elsku mamma. Síðastliðinn laugardagur hverfur mér seint úr minni. Tók ég börnin í fangið og þurfti að segja þeim að amma væri komin til guðs og afa Þórðar.

Elsku mamma mín. Nú veit ég að þér líður vel, pabbi hefur tekið vel á móti þér, og mun hann leiða þig um himnaríki. Elsku mamma mín, ég sakna þín og elska þig.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Þín dóttir,

Ingibjörg.

Elsku mamma, er ég var að alast upp kenndir þú mér m.a. bænir og góða siði og síðast en ekki síst hjálpsemi og náungakærleik en það var þitt aðalsmerki. Þú máttir aldrei vita af neinum sem ætti bágt. Þú varst alltaf að hjálpa. Líf þitt var enginn dans á rósum oft á tíðum og efnin oft lítil. En þú gafst alltaf annaðhvort af sjálfri þér eða af því litla efnislega sem þú áttir. Hugur þinn stefndi til frekara náms en því miður gat ekki af því orðið vegna aðstæðna þá. Hins vegar hvattir þú börn þín og barnabörn til að mennta sig og aldrei varstu stoltari en þegar einhver stóð sig vel í námi. Fjársjóður minninganna er eilífur og fullur af góðum minningum og fyrir það ber að þakka. Ég kveð þig í hinsta sinn með orðunum sem þú sagðir við mig kvöldið fyrir andlát þitt: Guð gefi þér góða nótt og mundu að ég elska þig.

Megi algóður Guð gefa okkur öllum styrk. Hvíl í friði, elsku mamma. Þín dóttir

Kristjana.

Elsku mamma mín. Nú ertu farin frá mér - fyrr en mig grunaði.

Minningarnar eru margar og góðar eins og þegar þú söngst og spilaðir á gítar fyrir okkur systkinin. Þú kenndir okkur bænir og góða siði sem og börnum og barnabörnum mínum. Þótt oft væri þröngt í búi skorti okkur aldrei neitt því nóg var um kærleik og ást. Sérstaklega er mér það minnisstætt þegar þú og Steini komuð til okkar upp í sumarbústað milli jóla og nýárs. Við spiluðum mikið og mikið var hlegið, sérstaklega þegar þú stakkst upp á því að láta björgunarsveitina ná í okkur, því við vorum veðurteppt. Alltaf gastu gert grín að aðstæðum sem þessum. Ég er þakklát fyrir þann tíma með þér, elsku mamma mín, og ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, börnin mín og barnabörn mín. Hvíl í friði, elsku mamma mín.

Jóhanna Olga.

Elsku amma. Nú ertu komin til himna, vonandi hefur þú það gott þar, við söknum þín mjög mikið, elsku amma. Við viljum kveðja þig með bæninni sem þú kenndir okkur.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson.)

Ömmubörnin

Bjarki og Tara Líf.

Elsku Erla amma, ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar, þegar ég kom á Flateyri á sumrin til þín og afa. Þaðan á ég ógleymanlegar bernskuminningar sem ég verð alltaf þakklát fyrir. Það var líka svo gaman þegar þú komst í Borgarnes að passa okkur systkinin þegar mamma og pabbi fóru til útlanda, það var svo gott að hafa þig hjá okkur, sérstaklega þar sem þú fórst að þrífa óvenjulega hluti eins og að bóna stígvélin hans Bjarna, og hann hélt að hann hefði fengið ný stígvél.

Tíminn sem ég bjó hjá þér í Reykjavík var líka dýrmætur og þrátt fyrir veikindi þín þá gerðirðu allt sem þú gast til að láta mér líða vel. Velferð annarra var oft ofar velferð þinni, þú vildir alltaf hafa alla góða og láta öllum líða vel.

Elsku amma, ég er svo heppin að hafa haft þig í mínu lífi.

Þín

Erla.

Elsku amma mín. Ég trúi því varla að þú sért farin frá okkur svo fljótt. Mér er svo minnisstætt þegar við áttum okkar síðustu stund saman og er þakklát fyrir það að eiga margar fallegar minningar um þig, elsku amma mín.

Ég er ánægð að strákarnir mínir náðu að kynnast þér. Þú kenndir mér svo margt, ég gat sagt þér allt og ég gat alltaf leitað til þín, þú dæmdir mig aldrei og ég vissi að ég átti góðan vin. Ég er stolt að bera nafnið þitt því fyrir mér táknar það kærleika og ást sem við áttum okkar á milli. Þú sýndir mér ljóð þegar ég var lítil og ég gleymi því aldrei og hefur alltaf minnt mig á þig.

Elsku amma mín, finndu ljósið og láttu það umvefja þig. Ég kveð þig í hinsta sinn. Guð blessi þig, Erla amma mín.

Erla, góða Erla.

Ég á að vagga þér.

Svíf þú inn í svefninn

í söng frá vörum mér.

Kvæðið mitt er kvöldljóð

því kvöldsett löngu er.

Hart er mannsins hjarta

að hugsa mest um sig.

Kveldið er svo koldimmt,

ég kenndi í brjósti um mig.

Dýrlega þig dreymi

og Drottinn blessi þig.

(Stefán frá Hvítadal.)

Þín

Bryndís Erla.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig Jónsson.)

Elsku amma, takk fyrir allt.

Sigríður, Bjarni og Birkir.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Sigurður Trausti.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson.)

Kveðja.

Þín ömmubörn

Þórður Örn og Guðjón Þór.