Guðmann Heiðmar var fæddur í Reykjavík 18. ágúst 1928. Hann ólst upp hjá fósturmóður sinni Arnfríði Stefánsdóttir frá Sandá í Svarfaðardal á Vesturgötu 50 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu Öldugötu 7a í Reykjavík hinn 25. apríl síðastliðinn.

Guðmann starfaði lengst af við verslunarstörf en starfaði m.a. fyrr á árum sem leigubifreiðarstjóri og var einn af stofnendum Bæjarleiða.

Guðmann var mjög hagur og skar út fallegu muni úr tré og málaði í olíu.

Guðmann átti son með Birnu Þórlindsdóttur, Gunnar Þór Guðmannsson, framkvæmdastjóra, hans kona er Sigrún A. Jónsdóttir. Börn þeirra eru, Katrín Ösp Gunnarsdóttir og Björn Þór Gunnarsson.

Útför Guðmanns verður gerð frá Árbæjarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Guðmann Heiðmar var vesturbæingur fyrst og fremst. Hann var lífskúnstner, náttúrubarn og einstakur maður um margt. Hann var listamaður, skar út fallega muni, málaði og fegraði umhverfi sitt með einstakri lífssýn og vilja til að gera rétt.

Um tveggja ára aldur tók Arnfríður Stefánsdóttir hann í fóstur og ól hann upp sem sinn son. Þau mæðginin bjuggu saman í Götuhúsi (öðru nafni Miðkot) sem kallað var og er einn af elstu steinbæjum í Reykjavík. Þetta hlaðna steinhús stendur á horni Vesturgötu og Bakkastígs. Hús þetta mun hafa verið reist 1894.

Guðmann bjó í þessu húsi nánast alla sína ævi en flutti sig um set í vesturbænum og bjó á Öldugötunni síðustu æviár sín.

Arnfríður móðir Guðmanns mun hafa látist í kringum 1973 og hafði þá búið sér og syni sínum heimili um áratuga skeið.

Ég minnist þess að hafa komið inn á heimili þeirra sem barn í mörg skipti og var það forvitnilegt. Í heimsóknum mínum á heimilið var ég í hlutverki sendisveinsins úr nýlendubúðinni í hverfinu sem Arnfríður verslaði við. Verslun þessa rak frændi minn sem látinn er fyrir mörgum árum og bar nafn hans, Hjörtur Hjartarson og var staðsett á Bræðraborgarstíg 1.

Arnfríður var dugleg kona og hafði þann starfa að hún rak eldhús á heimili sínu fyrir kostgangara í hádeginu og á kvöldin. Í minningunni voru viðskiptavinir hennar gjarnan einstæðingar og kynlegir kvistir sem nutu matseldar hennar og heimilis. Ég sat færis að koma með vörurnar til hennar í hádeginu til þess að hitta á kostgangara hennar og upplifa hlátrasköll, sögur og glaðværð sem einkenndi þennan hóp þar sem menn voru ekki metnir af veraldlegum hlutum heldur þeirri auðlegð sem bjó í hverjum manni og þeim kostum sem guð hafði skapað þeim.

Ég hygg að Guðmann hafi fengið gott lífsnesti frá uppeldismóður sinni og lært að meta það sem skiptir máli í lífinu. Hann safnaði sjálfur ekki í hlöðu á ævi sinni. Hans auðlegð bjó í þeim góðu gildum sem hann bjó sér sjálfur.

Guðmann var andans maður. Hann hafði á árum áður farið utan til að kynna sér speki og fræði gúrú nokkurs og komist að því að að sjálfur vitringurinn fór ekki eftir þeim kennisetningum sem hann predikaði lærisveinum sínum, fyrir Guðmann var þetta mikið áfall og markaði hann nokkuð.

Guðmann var hreinlyndur, hógvær og heiðarlegur maður. Hann var dulur þeim sem ekki þekktu hann. Þá gat Guðmann verið oft mjög beinskeyttur þegar hann var búinn að taka ákvörðun og honum varð þá ekki haggað.

Guðmann sá ljósið og lífið í öðrum litum en þeir sem eru ofur venjulegir og sjá allt í svörtu og hvítu. Ævintýrinu vildi hann gjarna deila með þeim sem honum þótti vænt um.

Gimsteinar hans voru barnabörnin, sem sárt sakna afa síns, þau Kata og Bjössi.

Elsku Gunni, Sigrún, Kata og Bjössi, við vottum ykkur sem og öðrum ástinvinum samúð á sorgarstund, minnug þess að að skilnaðarstundin sé jafnframt dagur samfunda í himnasal.

Minning um góðan mann lifir.

Sveinn Guðmundsson

og fjölskylda.