Guðrún Jónsdóttir fæddist á Patreksfirði 16. mars 1931. Hún lést 11. apríl síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Grensáskirkju 21. apríl.

Hún Guðrún er dáin. Gunna á Stekkum, litla stúlkan sem trúði því statt og stöðugt á tímabili í lífinu að Fransmenn tækju rauðhærða og freknótta krakka og notuðu í beitu ef þeir gengju á land í Patreksfirði. En Fransmennirnir komu ekki og litla stúlkan varð öruggari með sig.

Guðrún ólst upp í faðmi foreldra og systkina þar sem samkenndin var mikil, ekki aðeins gagnvart fjölskyldunni heldur líka umhverfinu og nágrönnunum. Það var fylgst með því hvort farið væri að rjúka á litlu bæjunum að morgni. Hvort ekki þyrfti að moka einhverja út þegar snjónum kyngdi niður dögum saman. Sjórinn var oft úfinn og bátarnir ekki eins góðir og nú á tímum. Guðrún vissi vel að hann tók stundum meira en hann mátti. Það komu ekki allir bátarnir að landi sem út fóru. Þá hjálpuðust allir að í litla þorpinu fyrir vestan.

Börnin lærðu strax að vinna störfin sem pabbi og mamma unnu. Guðrúnu langaði að vita meira og kynnast nýju. Hún dreif sig því í húsmæðraskólann að Staðarfelli. Það kostaði peninga svo að farið var í kaupavinnu í Skagafjörð. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur. Hún gifti sig og tóku þau hjón dreng í fóstur sem ekki átti þess kost að alast upp hjá foreldrum. Síðar fæddist dóttirin, dugnaðarkona frá fyrstu tíð. En þá skildi leiðir þeirra hjóna og nú tók á ungu konuna með börnin tvö. En hún sló ekki af hún Guðrún, bætti við sig meiri vinnu, þó alltaf með velferð barnanna í huga.

Landspítalinn var sá vinnustaður sem naut krafta hennar lengst, skurðstofan í hartnær fjóra áratugi. Þar hittumst við fyrst fyrir tuttugu árum. Hún tók á móti mér brosandi, glöð og hress með hlýjuna í augnakrókunum, í bláa sloppnum sem þá var við lýði, með rauða liðaða hárið og eitthvað var enn eftir af freknunum á nefinu. Ennþá vissi hún að betra var að gefa en að þiggja. Þó efnin væru ekki alltaf mikil átti hún stórt faðmlag sem margir nutu ef eitthvað gerðist gleðilegt eða sorglegt. Fór unga fólkið sem var að læra ekki varhluta af umhyggju hennar ef ekki var nóg af einkennisbúningum eða lítið kom af sokkum úr þvottahúsinu. Guðrún var alltaf með allt á hreinu. Í sumarfríunum var þó alltaf best að fara á Patró, sækja vini og ættingja heim. Margar skemmtilegar sögur sagði hún okkur frá uppvexti sínum.

Með árunum komu barnabörnin, hún var yndisleg amma og langamma og bar takmarkalausa umhyggju fyrir öllu sínu fólki sem hjálpaðist að við að taka á öllu sem að höndum bar með bros á vör og blik í auga.

Fljótlega eftir að hún lét af störfum veiktist hún og þurfti á mikilli meðferð að halda. Dagarnir voru ekki alltaf góðir en þó bjart á milli, þeirra stunda naut hún og á skírdag var hún við fermingu sonardótturinnar og nöfnu. Síðar á páskum var lífið búið hér á jörð. Hægt og hljótt gerðist það.

Ingibjörgu, Páli og fjölskyldum þeirra bið ég guðs blessunar. Hafi Guðrún þökk fyrir allt og allt. Hún var hetja sem vert var að taka til fyrirmyndar.

Halldóra Hilmarsdóttir.

Guðrún, eða Gunna eins og hún var ávallt nefnd, var vinkona mín frá barnæsku. Í huga mínum er það táknrænt fyrir hana að kveðja okkur á páskum, á hátíð gleði og friðar með fyrirheit um upprisu, fyrirgefningu syndanna og eilíft líf. Gunna var staðföst í trú sinni og vissu. Hún hafði oft orð á því hvað bænir móður sinnar hefðu hjálpað sér í gegnum lífið og með sama hætti bað hún fyrir þeim, sem mótlæti eða raunir mættu.

Líf Gunnu var ekki frekar en annarra dans á rósum alla tíð. Hún fékk sinn skerf af erfiðleikum, sem hún mætti jafnan með einstöku æðruleysi og auðmýkt. Hún var í rauninni stór sál, perla sem geislaði frá sér hlýju og fórnfýsi til annarra.

Gunna fæddist á Patreksfirði og ólst upp í faðmi ástríkra foreldra og systkina. Hún gerði oft hina kærleiksríku barnæsku að umtalsefni á sínum fullorðinsárum. Ung fór Gunna að heiman og allan sinn starfsaldur vann hún á Landspítalanum, með smá hléum þó. Hún var einstæð móðir sem ól upp fósturson og eignaðist síðar dóttur. Börnin voru henni til mikillar gleði. Þau reyndust henni líka góð, alltaf tiltæk ef á þurfti að halda, ekki síst eftir að hún veiktist af krabbameini. Læknismeðferðin gekk vel og hún var bjartsýn á framhaldið. Lokakaflann bar þó brátt að og ekkert var að gert.

Í síðasta samtali okkar kom fram hversu þakklát hún var fyrir allt það góða sem lífið og tilveran hefur að geyma, sem hún leit á sem gjöf. Gunna var mér gjöf sem ég nú þakka fyrir að leiðarlokum. Ég votta börnum, barnabörnum og öðrum ástvinum samúð mína.

Hvíl þú í friði, í ljósinu bjarta.

Ég kveð þig að sinni, af öllu mínu hjarta.

(N. N.)

Elsa H. Þórarinsdóttir.