Á öðrum ársfjórðungi 2004 var 2.348 kaupsamningum um fasteignir þinglýst við embætti sýslumannanna á höfuðborgarsvæðinu.

Á öðrum ársfjórðungi 2004 var 2.348 kaupsamningum um fasteignir þinglýst við embætti sýslumannanna á höfuðborgarsvæðinu. Heildarupphæð veltu nam 39,2 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 16,7 milljónir króna, segir í frétt frá Fasteignamati ríkisins.

Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 24,8 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli námu 9,9 milljörðum og viðskipti með atvinnuhús og aðrar eignir voru 4,5 milljarðar kr.

Veltuaukning 39,1%

Þegar 2. ársfjórðungur 2004 er borinn saman við 2. ársfjórðung 2003 kemur fram aukning í fjölda kaupsamninga sem nemur 18,6% og aukning veltu um 39,1%. Þá var þinglýst 1.979 kaupsamningum og nam upphæð veltu 28,2 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 14,2 milljónir króna. Þegar 2. ársfjórðungur 2004 er borinn saman við 1. ársfjórðung 2004 kemur fram aukning í fjölda kaupsamninga sem nemur 15,7,% og aukning í veltu um 12,0%. Þá var þinglýst 2.030 kaupsamningum og nam upphæð veltu 35,0 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 17,2 milljónir króna.

Þessar tölur endurspegla vel þá miklu hreyfingu, sem verið hefur á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri.

Minni íbúðir hafa gjarnan selzt afar hratt, sem bendir ótvírætt til þess að umframeftirspurn hafi verið að safnast upp. Góð hreyfing hefur einnig verið í stærri eignum, þó að þær séu eðli málsins samkvæmt ávallt þyngri í sölu.