Þetta er þriggja og fimm hæða fjölbýlishús með 26 íbúðum. Stæði í bílgeymslu fylgir öllum íbúðunum nema tveimur og lyfta er í húsi nr. 11 og gengur niður í bílageymslu. Fasteignasalan Húsið-Smárinn er með íbúðirnar í sölu.
Þetta er þriggja og fimm hæða fjölbýlishús með 26 íbúðum. Stæði í bílgeymslu fylgir öllum íbúðunum nema tveimur og lyfta er í húsi nr. 11 og gengur niður í bílageymslu. Fasteignasalan Húsið-Smárinn er með íbúðirnar í sölu. — Morgunblaðið/RAX
Reykjavík - Sú mikla uppbygging, sem á sér stað í austurhluta Grafarholts, fer ekki framhjá neinum, sem ekur þar um. Víða má sjá krana og önnur stórvirk vinnutæki að verki. Við Þórðarsveig 11, 13 og 15 er byggingarfyrirtækið Þórðarsveigur ehf.

Reykjavík - Sú mikla uppbygging, sem á sér stað í austurhluta Grafarholts, fer ekki framhjá neinum, sem ekur þar um. Víða má sjá krana og önnur stórvirk vinnutæki að verki.

Við Þórðarsveig 11, 13 og 15 er byggingarfyrirtækið Þórðarsveigur ehf. langt komið með að reisa þriggja og fimm hæða fjölbýlishús með 26 íbúðum, sem eru 2ja til 5 herbergja. Húsið er teiknað af Vektor arkitektum. Stæði í bílageymslu fylgir öllum íbúðunum nema tveimur og lyfta er í húsi nr. 11 og gengur niður í bílageymslu. Verð íbúðanna er að sjálfsögðu mismunandi eftir stærð, en verð á minnstu íbúðunum, sem eru 2ja herb. og 51,4 ferm., er frá 10,5 millj. kr. og verð á þeirri stærstu, sem er fimm herb. og 128 ferm., er 18 millj. kr.

Húsið er steypt upp á hefðbundinn hátt og er þegar langt komið samkvæmt framansögðu, en áformað er að afhenda íbúðirnar í haust. Lóðin skilast fullfrágengin, tyrfð og hellulögð með leiktækjum.

Fasteignasalan Húsið-Smárinn er með íbúðirnar í sölu. Að sögn Kristins Erlendssonar hjá Húsinu hefur markaðurinn tekið þessum íbúðum vel og eru nokkrar þeirra þegar seldar.

"Þetta eru vandaðar og hagkvæmar íbúðir og húsið stendur á góðum stað í austurhluta Grafarholts, þar sem skemmtileg útivistarsvæði eru í næsta nágrenni," sagði Kristinn Erlendsson að lokum. "Það má gera ráð fyrir aukinni eftirspurn nú þegar nýtt lánakerfi er komið í framkvæmd."