Besta forvörnin er góður frágangur og ef farið er í ferðalög eða í burtu í lengri tíma er lykilatriði að láta líta út fyrir að einhver sé í húsinu.
Besta forvörnin er góður frágangur og ef farið er í ferðalög eða í burtu í lengri tíma er lykilatriði að láta líta út fyrir að einhver sé í húsinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
INNBROTUM á heimili hefur farið fjölgandi hin síðustu ár.

INNBROTUM á heimili hefur farið fjölgandi hin síðustu ár. Ástæður þessarar þróunar eru lítt rannsakaðar, en menn hafa getið sér þess til að afbrotamenn líti nú á innbrot sem fýsilegri leið en áður til að afla fjármuna, fremur en aðrar tegundir auðgunarbrota.

Nú hefur lögregan í Reykjavík hrundið af stað sérstöku átaki um fækkun innbrota og segir Hinrik Pálsson rannsóknarlögreglumaður að markmiðið sé að reyna að fækka innbrotum um 20% í umdæminu.

Sótt í auðseljanlega hluti

Ekki er auðvelt að vita með vissu hvað veldur þessari aukningu í innbrotum en lögreglan leiðir getum að því að hún kunni tengjast aukinni kortanotkun, þ.e. að erfiðara sé nú en áður að stunda ýmsar tegundir fjársvika t.d. með ávísunum o.fl. sem tíðkaðist mjög hér áður fyrr.

Hinrik segir að helsta ásókn innbrotsþjófa hafi verið í hluti sem auðveldlega má koma í verð og eru ekki fyrirferðarmiklir. Þar má nefna fartölvur, skjávarpa, flatskjái fyrir tölvur, bílgeislaspilara/hljómflutningstæki, skartgripi, verkfæri, skotvopn, áfengi, tóbak og lyf, en hann segir að nokkuð hafi verið um innbrot í apótek á þessu ári þar sem ásókn virðist í sterk verkjalyf, rítalín og fleiri lyf sem algengt er að neytendur fíkniefna misnoti.

Innbrot í atvinnuhúsnæði eru helst stunduð að nóttu til eða um helgar, þegar engin starfsemi er á viðkomandi stað.

Öðru máli gegni um innbrot í heimahús, en innbrotsþjófar sækja mikið í þau á daginn á meðan íbúar eru í vinnu, á ferðalögum o.s.frv. Innbrot í bifreiðar eiga sér stað bæði að nóttu og degi. "Trekk í trekk, því miður, eru mikil verðmæti skilin eftir í bifreiðum þar sem auðvelt er fyrir brotamenn að sjá þau, t.d. eru nokkur dæmi um að fartölvum hafi verið stolið í innbrotum í bifreiðar, en það er auðvitað mjög freistandi fyrir þjófa að sjá slík tæki skilin eftir í bifreiðum," segir Hinrik.

Fyrir heimili er besta forvörnin góður frágangur og ef farið er í ferðalög eða í burtu í lengri tíma er lykilatriði að láta líta út fyrir að einhver sé í húsinu. Þá er einnig mjög gott að hafa samvinnu við nágranna sem fólk treystir um að hafa auga með húsnæðinu og vera á verði gagnvart grunsamlegum mannaferðum. Þannig má t.d. biðja nágranna um að fjarlægja póstinn og setja rusl í tunnuna eða nota bílastæðið á meðan viðkomandi er í burtu. Hinrik segir einnig skynsamlegt að fólk skrifi niður lista yfir þau verðmæti sem það á eða taki jafnvel myndir af þeim, sem síðan er hægt að afhenda lögreglu ef svo illa vill til að hlutunum sé stolið. "Það eykur stórlega líkurnar á því að hlutirnir komist til skila, því að lögreglan leggur iðulega hald á mikið af munum á hverju ári sem eru í höndum þekktra brotamanna og allt bendir til að viðkomandi munir séu illa fengnir, en lögregla nær ekki að tengja þá við neitt ákveðið innbrots- eða þjófnaðarmál. Verði fólk fyrir því að brotist er inn hjá því er um að gera að fara að öllu með gát þar sem verið getur að brotmaður sé jafnvel enn á staðnum, en einnig er mikilvægt að spilla sem minnst verksummerkjum," segir Hinrik. Þá bendir hann einnig á heimasíðu lögreglunnar www.logreglan.is þar sem finna má ýmis varnaðarorð og ráðleggingar um fyrirbyggjandi aðgerðir varðandi innbrot.

Öryggiskerfi hafa fælingarmátt

Guðmundur Arason, framkvæmdastjóri Securitas, segir að mesta eftirspurnin eftir heimavarnarkerfum Securitas sé í kringum páska, um mánaðamótin júní og júlí - sem er aðalsumarleyfistíminn - og svo aftur á haustin þegar rökkva tekur.

Það kerfi sem Securitas telur að henti best heimilum kalla þeir "Heimavörn", en það er fullkomið viðvörunarkerfi sem vaktar heimilið gagnvart innbrotum og bruna. Heimavörn Securitas samanstendur af átta rása stjórnstöð með einum reykskynjara, tveimur hreyfiskynjurum, einni sírenu og lyklaborði. Securitas lánar sjálft kerfið og hvorki þarf að greiða sérstaklega fyrir það né uppsetningu þess, heldur er greitt mánaðarlegt þjónustugjald sem felur í sér fjarvöktun kerfisins, útköll öryggisvarða allan sólarhringinn, ásamt viðhaldi og þjónustu við kerfið. Starfsmenn Securitas koma með kerfið á staðinn og setja það upp, en síðan er það tengt til stjórnstöðvar Securitas, sem er hluti af Neyðarlínunni 112. Auk hefðbundinnar vöktunar gagnvart innbrotum og bruna getur kerfið gert viðvart um vatnsleka, gasleka, raka, árásarboð o.fl., en þeim búnaði er hægt að bæta við kerfið eftir hentugleikum, og er þá greitt fyrir þann búnað sérstaklega.

Mánaðargjald fyrir staðlað Heimavarnarkerfi er 4.997 krónur á mánuði og það innifelur allan grunnbúnaðinn. Síðan er hægt að bæta við þá þjónustu eftir hentugleikum.

Guðmundur segir að Securitas bjóði einnig upp á tímabundna gæslu, svokallaða "Orlofsvöktun", sem er í raun sama kerfi og Heimavöktun, nema hvað kerfið er ekki sett upp á sama hátt útlitslega og ef verið væri að setja kerfið varanlega upp þar sem leiðslur og lagnir eru faldar. "Það felst í því að myndavélunum er komið fyrir á stöndum inni á heimilinu og búnaðurinn er síðan tengdur inn til stjórnstöðvar Securitas á sama hátt og önnur öryggiskerfi," segir Guðmundur. Uppsetning á búnaðinum og leiga fyrir hann í tvær vikur er um 18 þúsund krónur. Hægt er að framlengja leiguna eftir hentugleikum, en Guðmundur bendir á að hagkvæmara sé að kaupa áskrift að varanlegri Heimavörn Securitas, eigi að leigja kerfið lengur en tvo mánuði. Þá bendir hann einnig á að þau heimili sem eru með öryggisbúnað séu vandlega merkt og það eitt og sér feli í sér svo mikinn fælingarmátt að sjaldnast hafi þjófar nokkuð upp úr krafsinu þó þeir geri tilraun til innbrots á þau heimili. Þá er ónefnt eld- og vatnstjónið sem kerfin gera iðulega vart við áður en í óefni er komið.

"Við vöktum heimilin daglega sem eru með áskrift frá okkur, en gróflega má áætla að við fáum viðvörun um að gerð hafi verið raunveruleg tilraun til innbrots einhvers staðar í bænum annan hvern dag. Kerfin skila því sínu hlutverki fullkomlega, bæði með því að gera heimilin síður fýsilegri til innbrots, sem og að gera viðvart um leið og einhver óboðinn freistar inngöngu."

Securitas býður einnig upp á lausnir fyrir sumarbústaði. "Það er erfitt að koma höndum yfir þjófinn sjálfan í þeim bústöðum sem eru fjarri byggð, en það má koma í veg fyrir annan skaða á fasteigninni, t.d. þann sem hlýst af vatni eða snjó, þegar bústaðurinn er skilinn eftir opinn," segir Guðmundur.

Næturvarsla ekki síður mikilvæg

Guðmundur K. Erlendsson er sölustjóri einstaklingssviðs hjá Öryggismiðstöð Íslands. Hann segir að Öryggismiðstöð Íslands "klæðskerasníði" öryggiskerfi fyrir hvert heimili fyrir sig, en t.d. er boðið upp á innbrotavarnir, eld- og vatnsvarnir og ýmsa aðra sértæka þjónustu. Skynjararnir eru þráðlausir þannig að uppsetning kerfanna er tiltölulega auðveld, en stjórnstöðin sjálf þarf að komast í rafmagn og síma. "Kerfi okkar eru tvenns konar," segir Guðmundur. "Algengast er kerfi þar sem fólk er með áskrift að vörslu allt árið. Þá fer vöktunin fram samkvæmt fyrir fram ákveðnu ferli, en bílar okkar eru á ferðinni allan sólarhinginn. Við höfum einnig lagt áherslu á að vera með svokallaða næturvörslu, en hún fer þannig fram að fólk getur verið með ákveðinn hluta af húsinu varinn alla nóttina þegar það er heima sofandi, án þess að það trufli líferni fólks eða umgengni. Þegar við kynnum kosti kerfa okkar, áður en þau eru sett upp, förum við yfir alla þessa þætti með eigendunum.

Hins vegar bjóðum við upp á skammtímagæslu, til dæmis þegar fólk yfirgefur heimilið einhvern tíma vegna sumarleyfa. Þá er settur upp bráðabirgðabúnaður á heimilið og honum er sinnt á sama hátt og fyrri búnaðinum. Við förum jafnvel á heimilin og fjarlægum póst sé þess óskað."

Guðmundur segir að þeir sinni þónokkrum útköllum dag hvern þar sem öryggiskerfi á þeirra vegum gefa boð um að eitthvað kunni að vera að á heimilinu. Hann segir að um geti verið að ræða allt frá því að reykskynjari fari í gang vegna reyks frá eldavél, upp í tilraun til innbrots. "Við höfum bjargað mörgum heimilum frá stjórtjóni bæði vegna elds og vatns með þessum hætti," segir Guðmundur. "Þar sem kerfin eru sniðin að þörfum fólks hverju sinni er kostnaðurinn við þau mismikill, en oftast á milli fjögur og fimm þúsund krónur á mánuði. Síðan er hægt að bæta ýmiss konar aukabúnaði við grunnpakkann óski fólk eftir því." Sé um skammtímavörslu að ræða kostar fyrsta vikan um 10 þúsund krónur en hver viðbótarvika kostar 6 þúsund krónur.

Flest tryggingafélög bjóða afslátt af heimilistryggingum þar sem öryggiskerfi eru til staðar, enda minnkar áhætta tryggingafélaganna verulega þegar svona kerfi er til staðar.

Sumt tjón verður aldrei bætt

Fólk er oft furðuandvaralaust gagnvart innbrotum og sá hugsunarháttur er of algengur að fólk telji að það komi ekkert slíkt fyrir hjá því. Það er ekki alltaf hægt að verðleggja tjón í krónum og aurum, því oftar en ekki ganga þjófarnir þannig um að þeir eyðileggja persónulega muni sem hafa tilfinningalegt gildi og verða ekki bættir með peningum. Er þá ótalið óöryggið sem fólk upplifir þegar það kemst að því að óboðnir gestir hafi leikið lausum hala á heimilum þess, jafnvel á meðan íbúarnir lágu sofandi í rúmum sínum.

Það verður því seint fullbrýnt fyrir fólki að ganga vandlega úr skugga um að heimilið sé vandlega læst fyrir óboðnum gestum. Áður en heimilin eru yfirgefin þarf að gæta þes að allir gluggar séu lokaðir og dyr læstar.

gudlaug@mbl.is