Ingólfsstræti 12. Húsið er að flestu leyti dæmigert fyrir íslenzka steinsteypuklassík. Húsið var byggt 1928. Hönnuður: Guðmundur H. Þorláksson.
Ingólfsstræti 12. Húsið er að flestu leyti dæmigert fyrir íslenzka steinsteypuklassík. Húsið var byggt 1928. Hönnuður: Guðmundur H. Þorláksson. — Ljósmynd/Gísli Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞÓTT undarlegt megi virðast var fyrsta steinsteypta húsið ekki í höfuðstaðnum, heldur reis það efst í Norðurárdal í Borgarfirði. Þar stendur íbúðarhúsið í Sveinatungu enn, byggt 1895, þó að ekki sé búið á jörðinni.

ÞÓTT undarlegt megi virðast var fyrsta steinsteypta húsið ekki í höfuðstaðnum, heldur reis það efst í Norðurárdal í Borgarfirði. Þar stendur íbúðarhúsið í Sveinatungu enn, byggt 1895, þó að ekki sé búið á jörðinni.

Menn voru svo líka svo framsýnir á Snæfellsnesi þegar kirkjan á Ingjaldshóli var byggð 1903, að Jón Sveinsson byggingarmeistari notaði þá þetta almennt óþekkta byggingarefni.

Tekið opnum örmum

Það var með ólíkindum hvað Íslendingar voru fljótir að taka við sér, nýkomnir með heimastjórn, og átta sig á kostum steinsteypunnar. Þá hafði um nokkurt skeið staðið yfir blómatími bárujárnsklæddra timburhúsa þar sem íslenzkir húsasmiðir fóru á kostum og smíðuðu stundum gullfalleg hús án þess að nokkur teikning væri til.

En þeir höfðu óbrigðula tilfinningu fyrir formi og hlutföllum og það var sjálfsagður hlutur að leggja nokkuð í fagran dyra- og gluggaumbúnað. Líklega var fyrirmyndin nokkur glæsileg og íburðarmikil timburhús í sveiserstíl, sem svo er nefndur, en þetta voru "katalóghús" sem hægt var að panta frá Noregi.

Nokkur fallegustu húsin í þessum stíl standa enn austur á Seyðisfirði og einnig má nefna Samkomuhúsið á Akureyri og Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í Reykjavík, sem norskur útgerðarmaður reisti hjá Flateyri, en síðar var húsið flutt til Reykjavíkur. Höfuðstaðurinn væri fátæklegri án timburhúsanna í Þingholtunum og við Tjarnargötuna og sama má segja um Hafnarfjörð, Akureyri, Ísafjörð og Seyðisfjörð.

Síðan gerist það skömmu eftir aldamótin að steinsteypa kemur til sögu og þar með skammvinnt tímabil sem kennt er við íslenzka steinsteypuklassík. Þá var ekki búið að plægja akurinn fyrir beinar línur módernismans og húsasmiðir höfðu ekki aðrar fyrirmyndir en timburhúsin.

Ekki gat orðið um það að ræða að kópíera útlit timburhúsanna, en áfram var haldið með þá hugsun að eitthvað sérstakt yrði að gera fyrir augað. Í þeim anda fengu steyptir gaflar ávalan boga efst, gluggafletir voru inndregnir, aðalinngangurinn ef til vill bogmyndaður og annað eftir því.

Steinsteypuklassík eftir Rögnvald

Húsið Skólabrú 2 í Reykjavík er úrvals dæmi um íslenzka steinsteypuklassík og sem betur fer stendur húsið í sinni upprunalegu mynd. Höfundur þess er Rögnvaldur Ólafsson húsameistari. Húsið var steypt upp árið 1912 og sá sem byggði var Ólafur Þorsteinsson læknir. Eldra er húsið Ingólfsstræti 21 og Barónsfjósið, en húsið við Skólabrú er með elztu steinhúsum í Reykjavík.

Í næsta nágrenni vð Dómkirkjuna og Hótel Borg er húsið á fjölfarinni slóð og nú mæli ég með því að bílnum sé lagt og þetta fallega steinhús Rögnvaldar skoðað í krók og kring. Það hefur flest einkenni sem áður voru talin; sveigðar gaflbrúnir sem ná upp fyrir þakið og eru áhrifin talin vera frá dönskum nýbarokkhúsum, sem voru í tízku á fyrsta fjórðungi síðustu aldar. Húsið var fyrst ljósmálað, en 1933 var settur á það hrafntinnumulningur.

Ingólfsstræti í Reykjavík er merkileg gata að því leyti að þar eru þrjú byggingarsögulega merkileg hús. Númer 21 er elsta eða næstelsta steinsteypta húsið í Reykjavík, númer 14 er bezt varðveitta eintakið af fúnkisstíl og hefur áðar verið minnst á það. Við hlið þess er þriðja húsið, byggt 1928 og þar birtist hreinræktuð steinsteypuklassík eftir Guðmund H. Þorláksson. Myndir af þessu húsi hafa sést í auglýsingum að undanförnu þar sem það er nú til sölu.

Tveimur árum síðar byggði Eggert Kristjánsson stórkaupmaður íburðarmikið steinhús á Túngötu 30. Um það má deila hvort útlitið sé samkvæmt kokkabókum þeirra sem ræktað höfðu steinsteypuklassíkina. Víst er að minnsta kosti að breyting hefur orðið. Í stað þess að láta steyptan gafl rísa í fallegum boga efst, er húsið gaflsneitt en mikil vinna hefur verið lögð í mótasmíði til þess að mynda inndregin strik og tennta borða.