Villa Nova á Sauðárkróki. Húsið var byggt 1903.
Villa Nova á Sauðárkróki. Húsið var byggt 1903. — Morgunblaðið/Súsanna Svavarsdótt
Hið glæsilega hús, Villa Nova á Sauðárkróki, var byggt 1903 af Kristian Popp sem var kaupmaður þar í bæ.

Hið glæsilega hús, Villa Nova á Sauðárkróki, var byggt 1903 af Kristian Popp sem var kaupmaður þar í bæ. Húsið var byggt sem íbúðarhús fyrir hann og fjölskyldu hans og er svokallað kataloghús, flutt inn frá Noregi þannig að í því er eðalviður og var á sínum tíma álitið glæsilegasta hús Norðurlands.

Villa Nova þýðir einfaldlega Nýja húsið, og ber þann titil enn þann dag í dag þótt það sé aldargamalt, enda nýbúið að gera það upp að utan.

Eftir að Kristian Popp varð gjaldþrota, meðal annars vegna þess að hann var að byggja Villa Nova, hefur ýmis starfsemi verið rekin í húsinu; hótel, verslun, veitingastaður, auk þess sem búið hefur verið í því.

Í dag er húsið í eigu Alþýðubandalagsins á Sauðárkróki og í því eru tvær íbúðir, auk þess sem þar er salur fyrir ýmsa félagsstarfsemi.

Villa Nova bíður núna eftir nýjum rekstraraðila - eða eiganda - sem er fær um að endurnýja það að innan og reka starfsemi sem kallar á gesti og gangandi; starfsemi sem hæfir svo glæsilegu húsi sem er yfir 400 fermetrar að stærð.