Forsvarsmenn Inghóls ehf., þeir Þorsteinn Þorvaldsson, Kvistfelli, og Valtýr Pálsson athafnamaður, á lóðinni þar sem fyrirtækjahúsið mun rísa.
Forsvarsmenn Inghóls ehf., þeir Þorsteinn Þorvaldsson, Kvistfelli, og Valtýr Pálsson athafnamaður, á lóðinni þar sem fyrirtækjahúsið mun rísa. — Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Selfoss | Í undirbúningi er bygging 1.600 fermetra atvinnuhúsnæðis á Gagnheiði 70 á Selfossi þar sem gert er ráð fyrir starfsemi 16 smáfyrirtækja. Hver eining er 100 fermetrar að stærð og verða stórar dyr á hverri einingu ásamt venjulegum göngudyrum.

Selfoss | Í undirbúningi er bygging 1.600 fermetra atvinnuhúsnæðis á Gagnheiði 70 á Selfossi þar sem gert er ráð fyrir starfsemi 16 smáfyrirtækja. Hver eining er 100 fermetrar að stærð og verða stórar dyr á hverri einingu ásamt venjulegum göngudyrum.

Húsið verður byggt á miðri lóðinni og unnt að aka í kringum það. Hafist verður handa við bygginguna í júlí og gert ráð fyrir að ljúka henni í febrúar. Það er fasteignafyrirtækið Inghóll ehf. sem stendur að byggingunni og er hugmyndin sótt til iðngarðahugmynda sem sveitarfélög stóðu að á árum áður. Hver eining í húsnæðinu verður seld nánast tilbúin að innan og fullkláruð að utan með malbikaðri lóð og merktum bílastæðum.

"Við viljum með þessu höfða til lítilla fyrirtækja sem menn eru jafnvel með heima í bílskúr. Nú gefst mönnum færi á að eignast eigið húsnæði á hagkvæman hátt," segir Valtýr Pálsson, einn eigenda fasteignafyrirtækisins Inghóls, en meðeigandi er byggingafyrirtækið Kvistfell ehf. sem mun byggja húsið undir stjórn Þorsteins Þorvaldssonar, framkvæmdastjóra Kvistfells.

Inghóll býður væntanlegum kaupendum húsnæðisins 75% kaupverðsins á 25 ára láni með innan við 30 þúsund króna greiðslubyrði á mánuði. Hver eining í húsinu kostar 5,3 milljónir. Þeir Þorsteinn og Valtýr sögðust sjá fyrir sér að í þessu húsi safnist saman mörg smáfyrirtæki með rekstur af ýmsu tagi og kváðust hafa góðar vísbendingar um áhuga væntanlegra kaupenda.