Michael Schumacher
Michael Schumacher — Reuters
MICHAEL Schumacher á Ferrari vann glæsilegan sigur í franska kappakstrinum í gær eftir sérstaklega vel útfærða keppnisáætlun sem fleytti honum fram úr Fernando Alonso á Renault.

MICHAEL Schumacher á Ferrari vann glæsilegan sigur í franska kappakstrinum í gær eftir sérstaklega vel útfærða keppnisáætlun sem fleytti honum fram úr Fernando Alonso á Renault. Spánverjinn ungi varð annar og þriðji Rubens Barrichello á Ferrari sem stakk sér snilldarlega fram fyrir Jarno Trulli á Renault í næstsíðustu beygjunni.

Schumacher og stjórnendur Ferrari tóku þá áhættu að gera fjórum sinnum hlé á akstri sínum til að taka eldsneyti og skipta um dekk í þeim tilgangi að ná efsta sætinu. Þannig var Schumacher alltaf með bílinn léttan og tókst með þessu að ná forskoti sem leyfði honum að skjótast í þjónustuhlé án þess að Alonso næði honum. Schumacher komst fram úr honum á 33. hring þegar Alonso var í öðru þjónustuhléi sínu.

Þrátt fyrir að missa heimsmeistarann fram úr sér getur Alonso í sjálfu sér verið þokkalega ánægður með árangurinn því það hefur allt gengið á afturfótunum hjá honum og Renault í síðustu mótum.

Árangur Barrichello er einkar athyglisverður þar sem hann hóf keppni í 10. sæti og hann nýtti sér vel sofandahátt Trullis á síðustu metrunum.

Meistari Schumacher er nú með 90 stig í efsta sæti ökuþóra en Barrichello hefur 68, Jenson Button 48 og Jarno Trulli 46.

Í keppni bílasmiða er Ferrari með 158 stig, Renault 79 og BAR-Honda 62.