STEINGRÍMUR J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, vill að fjölmiðlafrumvarpið verði sett í vandaða skoðun og vinnufarveg, helst með þverpólitísku samráði. Það verði að byrja upp á nýtt með hreint borð, eigi að nást samstaða.

STEINGRÍMUR J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, vill að fjölmiðlafrumvarpið verði sett í vandaða skoðun og vinnufarveg, helst með þverpólitísku samráði. Það verði að byrja upp á nýtt með hreint borð, eigi að nást samstaða. Það hafi þingmenn VG alltaf verið tilbúnir að gera.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að eðlilegra hefði verið að fella lögin úr gildi og undirbúa nýja lagasetningu í samráði við stjórnarandstöðuna og aðra aðila í haust. Miklu fleiri en stjórnmálamenn þurfi að koma að þessari umræðu svo hægt sé að skapa almenna samstöðu og sátt í samfélaginu um þessar breytingar.

"Þetta breytir engu fyrir okkar fyrirtæki. Okkar afstaða til þessarar lagasetningar er óbreytt," segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Norðurljósa. Boðaðar breytingar á lögunum séu bara "furðulegur skrípaleikur".

Róbert Marshall, formaður Blaðamannafélags Íslands, segist fagna því að fjölmiðlalögin verði afturkölluð en hefur áhyggjur af því að menn ætli að leika sama leikinn og í vor og keyra málið í gegn á sumarþinginu.