David Simmons er fæddur árið 1955 á Nýja-Sjálandi. Hann lauk B.Sc.-gráðu í dýra-og grasafræði og meistaragráðu í auðlindastjórnun frá háskólanum í Canterbury, Nýja-Sjálandi, árið 1978 og doktorsgráðu í ferðafræðum frá háskólanum í Waterloo í Kanada árið 1989. Hann hefur starfað á vegum SÞ og Alþjóða náttúruverndarsjóðsins víða um heim og er nú prófessor í ferðafræðum við Lincoln-háskóla á Nýja-Sjálandi. David og kona hans Lita eiga fimm börn.
David Simmons er fæddur árið 1955 á Nýja-Sjálandi. Hann lauk B.Sc.-gráðu í dýra-og grasafræði og meistaragráðu í auðlindastjórnun frá háskólanum í Canterbury, Nýja-Sjálandi, árið 1978 og doktorsgráðu í ferðafræðum frá háskólanum í Waterloo í Kanada árið 1989. Hann hefur starfað á vegum SÞ og Alþjóða náttúruverndarsjóðsins víða um heim og er nú prófessor í ferðafræðum við Lincoln-háskóla á Nýja-Sjálandi. David og kona hans Lita eiga fimm börn.

Í dag heldur David G. Simmons, prófessor í ferðafræðum við Lincoln-háskóla á Nýja-Sjálandi, fyrirlestur um sögu og þróun ferðaþjónustu á Nýja-Sjálandi á vegum Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. Simmons mun fjalla um stefnumótun Nýja-Sjálands í ferðaþjónustu til ársins 2010 og hlutverk sjálfbærni sem lykilatriði í stefnumótun. Kastljósinu verður m.a. beint að Green Globe 21, kerfi sem er sérhannað til þess að styðja við fyrirtæki, samfélög og neytendur sem vilja stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu. Fyrirlesturinn verður haldinn í sal 132 í Öskju - Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands kl. 12 og er opinn öllu áhugafólki um ferðaþjónustu.

Hvað ætlarðu að tala um í fyrirlestrinum?

"Mig langar að tala um sjálfbæra ferðaþjónustu og mikilvægi heimamanna fyrir hag ferðaþjónustu á hverjum stað. Í heiminum í dag eru margir staðir yfirfullir af fólki og því verður staður eins og Ísland þar sem er fámennt, verðmætari með tímanum. Við verðum einnig að huga að því að nýta þá auðlind og spyrja okkur hvað er hagstæðast fyrir ferðaþjónustuna? Að mínu mati eru það ferðamenn sem nota fé í vörur og þjónustu sem framleiddar eru á hverjum stað. Það skilar litlu ef ferðamenn koma norður til Íslands og kaupa sér t.d. skoskt viskí. Það er mun hagstæðara þegar þeir kaupa innlenda vöru. Þetta býr til fjárstreymi til heimamanna. Ferðaþjónusta er meira en gististaðirnir því ferðamenn nota líka aðrar vörur og þjónustu. Ferðaþjónusta er bæði landslag og samfélag."

Hvað um ferðaþjónustu á Nýja-Sjálandi?

"Fyrir um átján mánuðum var sett stefnumótun til tíu ára fyrir ferðaþjónustu í landinu. Aðalmarkmiðið er að tryggja sjálfbærni til framtíðar. En hvernig vitum við hvort ferðaþjónusta er sjálfbær? Þar kemur m.a. Green Globe 21 til sögunnar þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu geta fengið vottun á sjálfbærri ferðaþjónustu. Þar er ferðaþjónusta á Snæfellsnesi til dæmis komin vel á veg."

Hvað um alþjóðlega framtíð ferðaþjónustu?

"Ferðaþjónusta sem atvinnugrein hefur í raun ekki verið til nema frá lokum seinni heimsstyrjaldar og hefur vaxið mjög hratt. Nú höfum við komist að því að ferðaþjónusta veldur miklu um hækkun hitastigs í heiminum þar sem mikil orka fer í að flytja fólk um heiminn í flugvélum. Ég held að ferðamennska eigi eftir að breytast á þann hátt að fólk fari frekar í lengri ferðir til að fræðast meira um menningu og sögu áfangastaðanna en að fólk skreppi hingað og þangað í styttri ferðir. Það er betra að hugsa um gæði en magn."