Kolfinna Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð, í ræðustól.
Kolfinna Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð, í ræðustól. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
BYGGÐASTOFNUN hefur þurft að leggja vaxandi hluta af ráðstöfunarfé sínu til afskrifta að því er fram kom á ársfundi stofnunarinnar fyrir helgi.

BYGGÐASTOFNUN hefur þurft að leggja vaxandi hluta af ráðstöfunarfé sínu til afskrifta að því er fram kom á ársfundi stofnunarinnar fyrir helgi. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði á fundinum að vissulega væri fjárhagsleg staða Byggðastofnunar erfið en þó ekki á neinum hættumörkum. Nú væri brýnt að bregðast við og mundi hún ræða þau mál við stjórnarmenn stofnunarinnar að loknu málþingi sem haldið var í framhaldi af ársfundinum.

"Í dag er mikil þörf fyrir öflugt starf Byggðastofnunar og mikilvægt að finna henni styrka og öfluga eiginfjárstöðu," sagði hún.

Í samtali við Aðalstein Þorsteinsson, forstjóra stofnunarinnar, kom fram að það væri trú stjórnenda að nú væri botni náð. Bjartara væri því framundan, enda væri fagleg staða stofnunarinnar mjög sterk, og brýnust þau verkefni helst að leita leiða í samvinnu við iðnaðarráðuneyti og önnur stjórnvöld að leysa þann fjárhagsvanda sem við er að etja. Einnig þyrfti að skilgreina betur stöðu stofnunarinnar í ljósi breyttra aðstæðna, sem skýrist m.a. af því sem fram kemur í lokaorðum inngangs að ársskýrslu, en þar segir:

"Nokkuð hefur verið um það á árinu 2003 að stór sjávarútvegsfyrirtæki og einnig raunar sterk fyrirtæki úr öðrum geirum atvinnulífsins, hafi greitt upp lán sín við stofnunina. Á þessu eru bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Neikvæðu hliðarnar eru þær að stofnunin þarf á sterkum viðskiptavinum að halda til þess að þola og jafna út þá áhættu sem hún tekur í lánveitingum sínum hverju sinni. Á hinn bóginn er það auðvitað jákvætt ef fyrirtæki sem orðið hafa að leita til Byggðastofnunar um lánsfjármögnun hafa styrkt sig svo í sessi að viðakiptabankarnir treysta sér nú til að bjóða þeim betri kjör en Byggðastofnun. Má segja að stofnunin hafi að þessu leyti náð tilgangi sínum."

Sagði Aðalsteinn að kynna þyrfti betur Byggðastofnun sem valkost við hlið bankakerfisins en ekki samkeppnisaðila.

Á málþinginu var rætt um stöðu sveitarstjórnarstigsins og byggðaþróun. Frummælendur voru þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kolfinna Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð, Smári Geirsson, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, og Halldór V. Kristjánsson frá Þróunarsviði Byggðastofnunar.

Sauðárkróki. Morgunblaðið