SÉRFRÆÐINGAR Landhelgisgæslunnar í sprengjumálefnum fjarlægðu á laugardagsmorgun tundurdufl úr togaranum Brettingi en duflið hafði komið í vörpu togarans fyrr um morguninn, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

SÉRFRÆÐINGAR Landhelgisgæslunnar í sprengjumálefnum fjarlægðu á laugardagsmorgun tundurdufl úr togaranum Brettingi en duflið hafði komið í vörpu togarans fyrr um morguninn, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Skipstjóri Brettings lét Landhelgisgæsluna vita um leið og duflið fannst og fékk leiðbeiningar um hvernig ganga skyldi frá duflinu áður en togarinn gat siglt í land.

Siglt var til Seyðisfjarðar þar sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru á báti út í togarann og fjarlægðu forsprengju frá aðalsprengihleðslu duflsins þannig að hægt var að flytja það í land. Lögregla á Seyðisfirði stöðvaði alla umferð um höfnina meðan sérfræðingarnir voru að störfum. Eftir að forsprengjan hafði verið fjarlægð var hægt að sigla togaranum til hafnar og flytja duflið á afvikinn stað þar sem sprengiefnið var brennt.