HEILDARÚTSTREYMI gróðurhúsalofttegunda (GHL) jókst um 0,2% frá árinu 2001 til 2002, samkvæmt nýjum útreikingum Umhverfisstofnunar sem sendir hafa verið til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

HEILDARÚTSTREYMI gróðurhúsalofttegunda (GHL) jókst um 0,2% frá árinu 2001 til 2002, samkvæmt nýjum útreikingum Umhverfisstofnunar sem sendir hafa verið til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Ef binding kolefnis í gróðri er talin með minnkaði nettólosun GHL um 0,3% milli ára, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Þessar tölur eru reiknaðar samkvæmt nýjum reikniaðferðum, og er útstreymi frá Íslandi um 16% meira að meðaltali á ári frá því sem áður var reiknað. Mismunurinn skýrist meðal annars vegna útstreymis frá landbúnaði. Árið 1990 var heildarútstreymi GHL á Íslandi um 3,3 milljónir tonna. Árið 2002 var heildarútstreymið orðið 3,6 milljónir tonna, og hafði aukist um 9% á tímabilinu. Sé tekið tillit til bindingar GHL með landgræðslu og skógrækt jókst nettóútstreymi um 4% frá 1990.

Losun dregst saman miðað við Kyoto-bókunina

Sé litið á stöðu mála í ljósi ákvæða Kyoto-bókunarinnar kemur í ljós að nettólosun GHL miðað við almennar losunarheimildir Íslands hefur dregist saman um tæp 9% frá 1990 til 2002. Nettólosun samkvæmt þessari forsendu minnkaði um 1% milli áranna 2001 og 2002.

Samkvæmt skuldbindingum Íslands í Kyoto-bókuninni skal almennt útstreymi GHL frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá 1990, og vera innan við 3.650 þúsund tonn koltvíoxíðsígilda árlega að meðaltali á tímabilinu 2008-2012. Þar til viðbótar skal koltvíoxíðsstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 ekki vera meira en 1.600 þúsund tonn að meðaltali árin 2008-2012. "Þetta útstreymi verður bókað sérsaklega utan almennra losunarheimilda Íslands þegar Kyoto-bókunin gengur í gildi," segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.