FJÖLSKYLDUHJÁLP Íslands hefur í nógu að snúast þessa dagana en að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns samtakanna, eru aðrar sambærilegar hjálparstofnanir lokaðar um tíma yfir sumarið.

FJÖLSKYLDUHJÁLP Íslands hefur í nógu að snúast þessa dagana en að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns samtakanna, eru aðrar sambærilegar hjálparstofnanir lokaðar um tíma yfir sumarið.

Fjölskylduhjálpin útvegar fólki sem á þarf að halda helstu nauðsynjavörur óháð kyni eða búsetu.

Ásgerður segir að miklar annir séu hjá samtökunum og að mörg sem sækja hjálp þurfi frá að hverfa. "Við erum alveg orðnar uppiskroppa með matvæli og þurfum því að senda frá okkur neyðarhróp til fyrirtækja." Að sögn Ásgerðar leita hátt í 150 fjölskyldur til samtakanna hvern þriðjudag en á þriðjudögum er bæði tekið við matvælum frá fyrirtækjum og þeim úthlutað til bágstaddra. "Við höfum þurft að takmarka okkur og aðstoðum bara 60 fjölskyldur á hverjum þriðjudegi. Við erum orðnar mjög skipulagðar og getum afgreitt töluverðan fjölda ef við bara eigum nóg af mat," segir Ásgerður.

Fjölskylduhjálpin er í fjósinu við Miklatorg og tekur við vörum frá fyrirtækjum milli 13 og 17 alla þriðjudaga.