Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir komu bæði stuðningsmönnum og andstæðingum í opna skjöldu í gærkvöldi eftir að tilkynnt var, að lagt yrði til við Alþingi að fella núverandi fjölmiðlalög úr gildi en að samþykkt yrðu ný lög í þeirra stað.

Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir komu bæði stuðningsmönnum og andstæðingum í opna skjöldu í gærkvöldi eftir að tilkynnt var, að lagt yrði til við Alþingi að fella núverandi fjölmiðlalög úr gildi en að samþykkt yrðu ný lög í þeirra stað. Samkvæmt upplýsingum forystumanna stjórnarflokkanna, þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, verður lagt til að ný lög taki ekki gildi fyrr en haustið 2007 og að markaðsráðandi aðilar megi eiga 10% í ljósvakamiðlum en ekki 5% eins og gert er ráð fyrir í núverandi löggjöf.

Í þessu felst að þar sem fjölmiðlalögin verða felld úr gildi á því þingi, sem saman kemur í dag, kemur ekki til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu, sem forseti Íslands hafði efnt til með því að beita 26. grein stjórnarskrárinnar. Jafnframt að þingkosningar fara fram áður en væntanleg ný fjölmiðlalöggjöf tekur gildi og kjósendur geta því tekið afstöðu til flokka og frambjóðenda með tilliti til hennar ef það hentar þeim.

Ný löggjöf sem samþykkt yrði á þingi nú í júlímánuði yrði að sjálfsögðu lögð fyrir forseta Íslands til undirskriftar og kemur þá í ljós, hvort hann skrifar undir lögin.

Með þessari óvæntu ákvörðun hefur ríkisstjórnin augljóslega viljað höggva á hnútinn og leysa þjóðina úr þeirri stjórnskipulegu kreppu, sem ríkt hefur frá ákvörðun forseta Íslands hinn 2. júní sl. Hún hefur jafnframt stigið ákveðið skref í átt til sátta gagnvart andstæðingum fjölmiðlalaganna. Þetta er hið jákvæða við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Miklar líkur eru á, að ákvörðun hennar losi þjóðina undan því fargi, sem fylgja mundi áframhaldandi stórpólitískum átökum. Mörgum þykir nóg komið.

Ef hins vegar er horft til efnis málsins er ljóst, að lög um eignarhald á fjölmiðlum taka ekki gildi fyrr en að rúmlega þremur árum liðnum í stað tveggja ára eins og núverandi löggjöf gerir ráð fyrir. Í þessi þrjú ár getur því staðan verið óbreytt sú, að nánast allir einkareknir fjölmiðlar á Íslandi nema Morgunblaðið séu í ráðandi eigu eins og sama aðila. Frá sjónarhóli þeirra, sem hafa sannfæringu fyrir því, að nauðsynlegt hafi verið og nauðsynlegt sé að hér sé til löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum er það töluverður tími.

Upphaflega gerði fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar ráð fyrir því, að markaðsráðandi aðili á öðru sviði mætti ekki eiga hlut í ljósvakamiðlum. Í meðförum þingsins var því breytt á þann veg, að slíkur aðili mætti eiga 5%. Nú hyggst ríkisstjórnin breyta þessum efnisþætti laganna og gera ráð fyrir að markaðsráðandi aðili megi eiga 10% í ljósvakamiðli.

Ástæðan fyrir því, að þessi prósentuhlutur er svo mikilvægur og raun ber vitni er einfaldlega sá, að í okkar litla samfélagi er tiltölulega auðvelt að ráða fyrirtæki með t.d. 25% eignarhlut með samstarfi við aðra. Það er hægt með 5% eignarhlut en mun erfiðara. Um leið og eignarhluturinn má vera 10% er það þeim mun auðveldara.

Þegar hart er deilt er stundum skynsamlegt að leita málamiðlunar. Ekki vill Morgunblaðið álasa ríkisstjórninni fyrir það að leita sátta um efni málsins í ljósi þeirra harkalegu átaka sem staðið hafa um fjölmiðlalögin eins og þau eru nú. Það er betra að friður ríki um mikilvæg mál en ófriður og ætla verður að ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í gærkvöldi stuðli að því að meiri sátt verði í samfélaginu en verið hefur um skeið.

Alla vega má ætla að meiri friður verði á þessu sumri en útlit var fyrir.

En átökin um fjölmiðlalögin hafa jafnframt vakið upp umræður og deilur um mikilvæg stjórnarskrárákvæði. Telja verður víst að hvað sem líður óvæntri ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna í gærkvöldi verði hafizt handa um skipulegan undirbúning að breytingum á stjórnarskránni. Óskandi væri, að stjórnmálaflokkunum tækist í þeirri vinnu að hefja sig upp yfir dægurþras stjórnmálanna. Að leggja til afnám 26. greinar stjórnarskrárinnar án þess að annað komi í staðinn er ekki til farsældar. Hins vegar blasir við að eðlilegt er að setja í stað 26. greinarinnar ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur um meginmál og síðan löggjöf á grundvelli stjórnarskrárákvæða um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og atkvæðagreiðslu innan einstakra sveitarfélaga. Þá má gera ráð fyrir að auðveldara verði að ræða spurninguna um það hvort setja eigi tiltekin skilyrði varðandi slíkar atkvæðagreiðslur eins og t.d. var þegar lýðveldisstjórnarskráin var lögð í dóm kjósenda.

Önnur mikilvæg ákvæði, sem fella þarf inn í breytta stjórnarskrá, varða sameign þjóðarinnar á auðlindum, bæði auðlindum hafsins og öðrum auðlindum, sem augljóslega eru sameign þjóðarinnar.

Líklegt má telja, að ríkisstjórninni hafi tekizt með ákvörðun sinni í gær að skapa pólitískar forsendur fyrir því að þetta starf geti farið fram með viðunandi hætti og að bærilegt samstarf geti tekizt um það á milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka á þingi. Það sem ætti m.a. að stuðla að því að stjórnarandstöðuflokkarnir verði tilbúnir til að taka þátt í slíku starfi á málefnalegum grundvelli er einfaldlega það, að þeir munu leggja gríðarlega áherzlu á að knýja fram breytingar á stjórnarháttum í næstu þingkosningum og það getur því verið þeirra hagur að taka þátt í skipulegri vinnu við að treysta stjórnskipan landsins og laga hana að nýjum viðhorfum og breyttum aðstæðum.

Það hefur augljóslega reynt mjög á samstarf stjórnarflokkanna síðustu daga, vikur og mánuði. Úr því að þeir hafa staðizt þá þolraun, sem þeir hafa tekizt á við að undanförnu, er ekki ástæða til að ætla annað en að samstarf þeirra geti haldið áfram snurðulítið á grundvelli þeirra breytinga, sem boðaðar hafa verið á ríkisstjórn og ríkisstjórnarforystu í september.