[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikarinn góðkunni Sean Connery mun skrifa ævisögu sína innan skamms en hann hefur áður tekið fyrir það að rita ævisögu.
Leikarinn góðkunni Sean Connery mun skrifa ævisögu sína innan skamms en hann hefur áður tekið fyrir það að rita ævisögu. Útgefandi bókarinnar, HarperCollins, gaf út tilkynningu þess efnis fyrir skömmu að Connery hefði samþykkt að gefa út ævisögu sína og kemur hún út haustið 2005. Connery, sem er 73 ára, sagðist kvíða fyrir verkefninu en einnig vera örlítið spenntur. "Ég hlakka til þess að takast á við þetta verkefni en til þessa hef ég skorast undan því að rita æviminningar mínar," sagði Connery. Talskona HarperCollins segir að bókin muni verða heiðarlegri en flestar ævisögur fræga fólksins og að Connery hefði lofað því að fjalla opinskátt um ævi sína. ... Leikarinn Bill Cosby , sem hvað þekktastur er fyrir hlutverk sitt í Fyrirmyndarföður, gagnrýndi unga Bandaríkjamenn af afrískum uppruna fyrir slæmt málfar á ráðstefnu um borgaraleg réttindi. "Ég er að tala um guðlast og það þegar menn formæla náunga sínum. Unglingarnir halda að þeir séu móðins en þeir geta ekki einu sinni lesið og skrifað. Þeir eru stefnulaus reköld," sagði Cosby. ... Leikkonan Shar Jackson segir að Britney Spears ætti að vera viðbúin breytingum ætli hún sér að giftast dansaranum Kevin Federline . Shar og Kevin eiga saman tveggja ára dóttur og eiga von á öðru barni innan skamms. "Ég þekki ekki Britney og get ekki talað fyrir hana, en hún verður að vera tilbúin að takast á við þetta hlutverk," sagð Shar í viðtali í sjónvarpsþættinum "Access Hollywood". Þá sagðist hún einnig hlakka til að hitta Spears og ræða við hana um hennar hlutverk. "Eftir að við erum búnar að ræða saman mun allt falla í ljúfa löð og við verða ein stór fjölskylda," sagði Shar og bætti því við að hún bæri engan kala til söngkonunnar ungu. ... Tennisstjarnan Maria Sharapova, sem sigraði á Wimbledon um helgina, gæti orðið hæst launaða íþróttakona allra tíma að sögn sérfræðinga. Hún gæti jafnvel orðið eins þekkt og Tiger Woods og David Beckham . Hin 17 ára rússneska tenniskona varð alþjóðleg stjarna á augabragði þegar hún sigraði Serenu Williams og varð þriðja yngsta konan í sögunni til þess að vinna Wimbledon-keppnina. Almannatengslamógúlinn Max Clifford sagði að Sharapova hefði alla möguleika á því að verða þekkt um allan heim og gæti jafnvel skákað þeim karlkyns íþróttamönnum sem eru hvað þekktastir. "Hún er kynþokkafull, aðlaðandi og hefur ótrúlega hæfileika," sagði Clifford. ... Tónlistarmaðurinn alræmdi, David Crosby , sem stofnaði hljómsveitirnar Byrds og Crosby, Stills and Nash, hefur verið sektaður um fimm þúsund bandaríkjadali fyrir ólöglegan vopnaburð. Þetta kemur í kjölfarið á handtöku hans í New York í mars þegar byssa, hnífur og kannabisefni fundust í farangri hans. Fallið var frá ákæru vegna kannabisefnanna að því gefnu að Crosby héldi ekki áfram að virða lög og reglur að vettugi. Crosby, sem er 62 ára gamall, kemur fyrir dóm þann 15. september. ... Söngkonan Kylie Minouge hefur hvað eftir annað hafnað í efsta sæti þegar kosið er um lögulegasta afturenda skemmtanaiðnaðarins. Samkvæmt könnun rakvélaframleiðandans Gillette hefur hún einnig lögulegustu leggina. Cameron Diaz hafnaði í öðru sæti og Jennifer Ellison í því þriðja. Einnig var gerð könnun á því hvaða karlmenn hefðu fallegustu fótleggina. David Beckham , fyrirliði Englendinga í knattspyrnu, hafnaði í fyrsta sæti þrátt fyrir það að honum hafi verið mislagðir fætur á nýliðnu Evrópumóti. Brad Pitt hafnaði í öðru sæti en hann þótti taka sig einkar vel út í leðurpilsi í myndinni Troy. Jonny Wilkinson varð að gera sér þriðja sætið að góðu.