ESB er "hálfáttavilt blendingsskepna". En það er og verður kjölfesta samstarfs Evrópuríkja.
ESB er "hálfáttavilt blendingsskepna". En það er og verður kjölfesta samstarfs Evrópuríkja. — Reuters
Fréttaskýring | Svonefnd stjórnarskrá ESB er að sögn Auðuns Arnórssonar viðkvæm málamiðlun milli þeirra sem vilja frekari samruna og þeirra sem vilja standa vörð um völd þjóðríkjanna. Óvíst er hvort takast muni að fullgilda hana.

STJÓRNARSKRÁ Evrópusambandsins (ESB), eins og það plagg hefur verið kallað sem leiðtogar ESB-landanna 25 komu sér loks saman um á fundi í Brussel á 60 ára lýðveldisafmæli Íslands, mun við gildistöku - að því gefnu að hún verði fullgilt í öllum aðildarlöndunum - ekki skapa Bandaríki Evrópu sambærileg Bandaríkjum N-Ameríku.

Hinir evrópsk-ættuðu Bandaríkjamenn sem árið 1787 settust niður í Fíladelfíu til að semja sér stjórnarskrá voru einhuga um að skapa nýja þjóð - og þeir gerðu það. Evrópubúar eru ekki einhuga. Fjarri því.

ESB-stjórnarskráin, eða réttara sagt stjórnarskrársáttmálinn, er málamiðlun sem mikið var haft fyrir að ná milli sjónarmiða þeirra sem vilja tryggja starfhæfni, skilvirkni og lýðræðislegt lögmæti stofnana ESB til frambúðar með því að færa stjórnskipun þess lengra í átt að stjórnkerfi hefðbundins sambandsríkis, og hinna sem telja slíkt vera mjög óæskilega þróun og vilja standa vörð um völd þjóðríkjanna; að hinu yfirþjóðlega valdi verði til frambúðar settar skýrar skorður.

Niðurstaðan er málamiðlun milli þessara tveggja sjónarmiða og af því leiðir að breytingin sem stjórnarskrársáttmálinn hefur í för með sér er frekar mælanleg í smáskrefum en stóráföngum. Evrópusamband framtíðarinnar mun ekki vera svo ýkja frábrugðið því Evrópusambandi sem við búum við í dag.

ESB er blendingsskepna sem á sér engan sinn líka. Á sumum sviðum hafa aðildarríkin framselt fullveldi sitt í einn sameiginlegan pott, ef svo má segja, og gengizt undir að á þessum sviðum séu ákvarðanir teknar með vegnum meirihluta og stofnanir eins og Evrópuþingið hafi þar mikið að segja. Á öðrum málefnasviðum hafa aðildarríkin haldið sínu fullveldi óskoruðu.

Ekki einni röddu

Þetta er það mynstur valdmarka milli þjóðríkjanna og hins yfirþjóðlega valds ESB sem með stjórnarskrársáttmálanum virðist ætla að festast í sessi fyrir tíð heillar kynslóðar.

Stjórnarskrá ESB gengur að sumra áliti ekki nógu langt og of langt að annarra mati.

Þau aðildarríki sem vilja ganga lengra í samrunaátt kunna að halda sínu striki í því efni í smærri eða stærri hópum innan sambandsins, líkt og þegar er tilfellið með þau lönd sem hafa tekið upp evruna.

Og vegna þess að stjórnarskrársáttmálinn er málamiðlun þýðir það einnig að Evrópusambandið mun eftir sem áður eiga erfitt með að láta að sér kveða í alþjóðastjórnmálum. Það mun þá aðeins vera fært um að tala einni röddu þegar öll aðildarríkin eru sammála en eins og gefur að skilja er ljóst að slíkt gerist ekki oft með 25 ríki innanborðs.

Í stuttu máli má segja að það sem stjórnarskrársáttmálinn hefur í för með sér (verði hann fullgiltur) er að hann ýtir undir nánara samstarf aðildarríkjanna á vissum sviðum - með víðtækari notkun atkvæðagreiðslna með vegnum meirihluta - og hægja á því eða jafnvel stöðva það á öðrum, svo sem á sviði utanríkis-, varnar- og skattheimtumála.

Skýrar kveðið á um valdmörk

Meðal helztu nýjunga í sáttmálanum er að kveðið er skýrt á um hvaða málefni heyra að öllu undir hið yfirþjóðlega valdsvið ESB, á hvaða sviðum yfirþjóðlegar stofnanir ESB og yfirvöld í þjóðríkjunum deila með sér valdinu og í þriðja lagi hvaða svið það eru sem yfirþjóðleg afskipti geta aðeins verið mjög takmörkuð.

Frá íslenzkum sjónarhóli er athyglisvert að þar sem talin eru upp málefni sem heyra einvörðungu undir hið yfirþjóðlega valdsvið er "verndun lífríkis hafsins" að finna. Með þessu kann að verða torsóttara en áður að finna íslenzkum (og norskum) sjávarútvegshagsmunum borgið innan reglukerfis ESB, en á það reynir ekki fyrr en í aðildarsamningum, komi til þeirra.

Önnur mikilvæg nýjung er að opnað er á möguleika aðildarríkja til að segja sig úr ESB.

En þótt leiðtogum aðildarríkjanna 25 hafi loks tekizt - eftir nær tveggja ára undirbúning, fyrst Framtíðarráðstefnunnar svonefndu og svo ríkjaráðstefnu - að koma sér saman um nýjan stjórnarskrársáttmála, er björninn aðeins að hálfu unninn. Stjórnmálamennirnir sem munu undirrita hreinritaðan texta sáttmálans við hátíðlega athöfn í Róm þann 20. nóvember næstkomandi - 47 árum eftir að upprunalegi Rómarsáttmálinn var undirritaður - virðast þurfa að taka á honum stóra sínum eigi þeim að takast að sannfæra almenning í hinu 450 milljón manna bandalagi um að rétt sé að fullgilda þennan texta. Að minnsta kosti í Bretlandi, Danmörku, Lúxemborg og á Spáni og Írlandi munu fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur um staðfestingu sáttmálans, í öðrum aðildarlöndum annast þjóðþingin fullgildinguna. Gangi allt að óskum tekur sáttmálinn gildi um áramótin 2006-2007.

"Það bezta sem hægt er að segja um stjórnarskrársáttmálann er að hann endurspeglar Evrópusambandið eins og það er núna: hálfáttavilt blendingsskepna". Þetta er dómur Giovanni Grevi, aðstoðarrannsóknastjóra við Evrópurannsóknastofnunina European Policy Centre í Brussel. En hann skrifar einnig að án þessa stjórnarskrársáttmála skyldi sjálf tilvist Evrópusambandsins, í þeirri mynd sem við þekkjum það nú, ekki vera tekið sem sjálfsögðum hlut að tíu árum liðnum. Að hann taki gildi sé því gríðarmikilvægt fyrir alla álfuna.

auar@mbl.is