Heimir Örn Herbertsson
Heimir Örn Herbertsson
Heimir Örn Herbertsson fjallar um þjóðaratkvæðagreiðsluna: "Það er háttur sumra stjórnmálamanna að haga seglum eftir vindi og segja helst bara það sem vel er talið hljóma hverju sinni."

VIÐ VORUM á spjalli í gær, nokkrir kunningjar, um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu og fjölmiðlamálið. Þá bar á góma sígild athugasemd um tilgangsleysi lögfræðinnar sem sýndi sig í því að það væri greinilega hægt að komast að hvaða niðurstöðu sem er um hvað mætti eða mætti ekki gera vegna ákvæða stjórnarskrárinnar. Niðurstaðan virtist fara eftir því hvernig menn væru stemmdir gagnvart ríkisstjórninni eða eftir einhverjum pólitískum innréttingum manna.

Ég er þeirrar skoðunar að framangreint segi mest um þann eða þá lögfræðinga sem þannig vinna en minnst um lögfræðina. Það er hins vegar varla hægt að lá mönnum fyrir að finnast þetta eins og umræðan hefur verið að undanförnu.

Gott dæmi um þetta er framganga míns gamla prófessors úr Háskóla Íslands, Jónatans Þórmundssonar, sem situr í svokölluðum viðbragðshópi Þjóðarhreyfingarinnar. Jónatan hefur látið í ljós skoðanir sínar á því hvernig túlka eigi stjórnarskrána, meðal annars um það hvort það samrýmist stjórnarskránni að setja lög um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu sem feli það t.d. í sér að einhver lágmarksfjöldi kosningabærra manna þurfi að greiða atkvæði til að niðurstaða kosningarinnar upphefji ákvörðun Alþingis um að setja lög. Ég hef skilið Jónatan þannig að hann sé að lýsa lögfræðilegum skoðunum sínum á þessu.

Í byrjun júnímánaðar vakti m.a. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra athygli á því að í atkvæðagreiðslu Reykjavíkurbúa um flugvöllinn í Vatnsmýrinni hefði R-listinn sett það skilyrði að 75% kjósenda yrðu að taka þátt í kosningunni svo hún teldist bindandi. Þetta væri nokkuð lægra hlutfall en almennt gilti við þingkosningar. Um þessar hugleiðingar sagði Jónatan Þórmundsson í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur á Bylgjunni hinn 6. júní sl. að skilyrði um 75% þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu jafngilti tilraun til að ræna þjóðina réttinum til að segja hug sinn. Síðan sagði Jónatan: "En hvort það er heimilt að setja eitthvert mark það er annað mál, ég tel að það væri best að það væri sem lægst og helst þannig að allir flokkar komist nokkurn veginn að samkomulagi um það." Í viðtali við Stöð 2 sama dag sagði Jónatan um hvort setja mætti reglu um lágmarksþátttöku í kosningunum "að það er sjálfsagt alveg hugsanlegt að setja það".

Þennan dag í júnímánuði var Jónatan Þórmundsson semsagt þeirrar skoðunar að það samrýmdist stjórnarskránni að setja einhver mörk af þessu tagi en skilyrði um 75% þátttöku væri of hátt. Hitt er annað mál að það hefur ekkert með lögfræði að gera hvort allir flokkar komast nokkurn veginn að samkomulagi um eitthvað, en látum það vera. Síðan liðu þrjár vikur.

Í viðtali við Ríkisútvarpið hinn 29. júní sl. fjallaði Jónatan um skýrslu viðbragðshóps Þjóðarhreyfingarinnar um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Niðurstaða hópsins var sú að það væri ekki bara ólögmætt að lögfesta skilyrði um lágmarksþátttöku, það væri líka ólýðræðislegt og andstætt siðferðisrökum! Jónatan Þórmundsson útskýrir: "Við teljum út frá ýmsum bæði sérfræðiviðhorfum og öðrum, svona heilbrigðri skynsemi, öll þessi sjónarmið skarast, að þá sé það bæði sögulega og lögfræðilega og siðferðilega og lýðræðislega ótækt að setja neinar takmarkanir umfram þær sem að stjórnarskráin segir sjálf."

Sé því slegið föstu að hvorki stjórnarskráin né viðteknar skýringarvenjur á henni hafi breyst á þessum þremur vikum þá liggur hreint ekki í augum uppi hvernig einhver, sem vill láta taka sig alvarlega í umræðum um þetta álitaefni, getur snarsnúið afstöðu sinni til málsins á þennan hátt. Eina skýringin er sú að Jónatan Þórmundsson er í pólitískum erindagjörðum í þessu máli og hans afstaða til þess er pólitísk afstaða sem hann reynir að klæða í lögfræðilegan búning.

Sá skilningur á því hvað er lýðræðislegt, sem birtist í niðurstöðu hópsins, er líka undarlegur. Lögin sem hér um ræðir voru samþykkt af lýðræðislega kjörnum meirihluta á Alþingi. Þann meirihluta kusu yfir 90.000 Íslendingar í síðustu alþingiskosningum. Einn maður, Ólafur Ragnar Grímsson, ákvað án þess að tala við neinn, eins og hann hefur sjálfur upplýst, að þessi lög yrði að bera undir þjóðina alla, vegna þess að honum fyndist að gjá væri á milli þingmanna og þjóðarinnar í afstöðu til málsins. Hópurinn virðist telja lýðræðislegt að lítill hópur fólks geti við þessar aðstæður fellt lögin úr gildi. Það þarf semsagt gjá milli þings og þjóðar til að Ólafur Ragnar ákveði að þjóðin greiði atkvæði en það þarf enga gjá til að fella lögin úr gildi í þeirri atkvæðagreiðslu. Lýðræðiseggið höndlar þannig fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins sem tekur lýðræðislegar ákvarðanir með sjálfum sér um hvenær mál þarf að leggja í dóm þjóðarinnar og hvenær ekki. Og það er ólýðræðislegt og ósiðlegt að gera þá kröfu að einhverjir fleiri en t.d. Ólafur sjálfur mæti á kjörstað!

Það er háttur sumra stjórnmálamanna að haga seglum eftir vindi og segja helst bara það sem vel er talið hljóma hverju sinni. Það heitir að vera tækifærissinnaður. Tækifærismennska er vond í pólitík og enn verri í lögfræði. Sýnu verst er þó þegar menn ráða ekki við að halda lögfræðinni frá pólitíkinni.

Heimir Örn Herbertsson fjallar um þjóðaratkvæðagreiðsluna

Höfundur er héraðsdómslögmaður.